Skoðun

Forvarnateymi grunn­skóla – góð hug­mynd sem má ekki sofna

Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar

Baráttan gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni hefur orðið öflugri á síðustu árum. Innan skólanna hefur ítrekað borist ákall um róttækar aðgerðir til að vernda börn og ungmenni. Sem betur fer hefur verið hlustað á þessar raddir. En baráttunni lýkur sennilega aldrei og þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til mennta- og barnamálaráðherra um stöðu forvarnateyma grunnskóla. Með henni vil ég fá skýra mynd af því hvernig þessi mikilvæga aðgerð, sem ætlað er að vernda börn gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, stendur í dag.

Forvarnateymi í hverjum grunnskóla

Í júní 2020 samþykkti Alþingi þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt aðgerðaáætlun fyrir árin 2021–2025.

Ein af aðgerðum hennar, C.1., kveður á um að í hverjum grunnskóla starfi forvarnateymi sem tryggi kennslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, kennslu sem hæfir aldri og þroska nemenda.

Teymið á jafnframt að vera kennurum og öðru starfsfólki til stuðnings og sjá til þess að fræðsla og þjálfun starfsfólks sé fullnægjandi.

Þetta er framsækin og nauðsynleg aðgerð. Hún felur í sér að við tökum forvarnir alvarlega, ekki sem tilfallandi verkefni, heldur sem fastan hluta af menningu skólans og samfélagsins.

Aðgerð merkt „lokið“ – en er hún það?

Í mælaborði dómsmálaráðuneytisins, þar sem fylgst er með stöðu aðgerða í áætluninni, kemur fram að aðgerð C.1. teljist lokið, þar sem forvarnateymum hafi verið komið á í öllum grunnskólum.

En aðkoma teyma að þessum málaflokki er ekki verkefni sem hægt er að „loka“.

Hluti af ábyrgð þeirra er stöðug fræðsla, bæði til nemenda og starfsfólks, og sú fræðsla þarf að vera endurnýjuð, markviss og lifandi.

Ég spyr því hvort virkni teyma hafi haldist óslitin frá því þau voru stofnuð, og hvernig sé tryggt að þessi mikilvæga vinna sé ekki orðin pappírsvinna sem hefur misst marks í daglegum veruleika skólanna.

Þekking og yfirsýn sem vantar

Þegar kallað var eftir upplýsingum um hlutfall starfsfólks sem lokið hafði námskeiði um þessi mál í vor, bárust svör aðeins frá 60% grunnskóla.

Ef sama verður uppi á teningnum nú, má ljóst vera að okkur skortir yfirsýn yfir stöðuna.

Það er bagalegt, ekki síst þegar við erum að tala um forvarnir sem snerta öryggi barna.

Við eigum að vita með vissu hvernig staðan er, hjá öllum börnum í skólakerfinu, í stað þess að giska eða vona hið besta.

Rödd ungmenna – alvöru aðgerðir sem skipta máli

Ungmenni sjálf hafa lengi kallað eftir raunverulegum aðgerðum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Samþykkt aðgerðaáætlunarinnar er í raun hluti af þeirri samfélagsbyltingu sem hefur átt sér stað á síðustu árum þar sem ungt fólk hefur verið leiðandi í því að kalla eftir breytingum. Það er mikilvægt að við höldum áfram að hlusta á ungmenni, fólkið sem hefur beina reynslu af því hvort aðgerðir séu að virka.

Í vinnustofum sem Barnaheill hélt sl. vor kom það skýrt fram að fræðsla um þessi mál er of stopul og misjöfn eftir skólum.

Fæst ungmennanna sögðust fá fræðslu reglulega, ólíkt því sem gildir um önnur forvarnarefni eins og umferð eða vímuefni.

Þegar fulltrúar ungmenna komu á Alþingi í apríl síðastliðnum, sögðu þau að fræðslan væri oft tilviljanakennd og háð áhuga einstakra kennara eða skólastjóra.

Þau hafa rétt fyrir sér.

Það er ekki nóg að eiga góðar stefnur á pappír, þær þurfa að lifa í raunveruleikanum, í skólastofum landsins.

Börn eiga rétt á öryggi – ekki áætlun sem gleymist

Markmiðið með fyrirspurn minni er að fá skýra mynd af því hvernig forvarnateymi grunnskóla starfa í dag, og hvort þau uppfylla raunverulega það hlutverk sem Alþingi ætlaði þeim.

Við skuldbundum okkur til að gera betur í þessum málum. Ekki vegna forms eða skýrslna, heldur vegna barna landsins.

Börn eiga rétt á öryggi. Þau eiga rétt á fræðslu, skilningi og stuðningi til að greina og verjast ofbeldi og áreitni.

Það er ábyrgð okkar allra! Stjórnvalda, sveitarfélaga, skóla, forráðamanna og samfélagsins alls að tryggja að þessi réttur sé ekki bara orð á blaði, heldur lifandi veruleiki í skólum landsins.

Ég hvet mennta- og barnamálaráðherra til að tryggja að forvarnateymi grunnskóla fái þann stuðning, eftirfylgni og skýra ábyrgð sem þarf til að markmið áætlunarinnar náist til fulls.

Því forvarnir sem virka eru forvarnir sem lifa.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands.




Skoðun

Sjá meira


×