Menning

Heiður að fá að segja sögu kvennanna sem ruddu brautina

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kvennafri_2023.jpeg

Linda Ólafsdóttir, rit- og myndhöfundur, opnar um helgina sýninguna Ég þori! Ég get! Ég vil! á Borgarbókasafninu í Grófinni. Á sýningunni verður hægt að sjá frummyndir og skissur úr bókinni sem kom út árið 2023. Myndirnar hafa áður verið sýndar í New York og á bókahátíðinni í Bologna á Ítalíu.

Sýningin er í tilefni af Kvennaárinu og kvennafrídeginum en í ár eru fimmtíu ár síðan konur lögðu fyrst niður störf til að vekja athygli á kynjamisrétti í íslensku samfélagi.

„Ég ákvað að skrifa söguna út frá mæðgum í nútímanum þar sem móðirin er að segja barninu sínu frá því þegar hún upplifði kvennafrídaginn þegar hún var lítil stelpa með mömmu sinni. Þannig að við flökkum aðeins aftur í tímann og það er fjallað um kvennabaráttuna og hvernig þessi dagur varð til og hvernig hann varð svona stór 1975.“

Eftir það er svo fjallað um hvernig kvennafrídagurinn hefur áhrif á jafnrétti í nútímanum. Linda segist hafa fengið innblásturinn frá tengdamóður sinni, Systu.

„Ég tileinka henni bókina. Allt frá því að ég kynntist henni fyrir mörgum árum síðan hefur hún reglulega talað um þennan dag við mig og hvernig hann hafði rosalega mikil, sterk og góð áhrif á hana. Hvernig þetta var fyrir hana mögnuð upplifun.“

Tileinkunin í bókinni hljóðar svona: „Handa Systu sem tók sér frí og þrammaði niður í bæ þann 24. október 1975. Eldaði hvorki né þreif eða hugsaði um börnin, heldur söng og hrópaði og varð svo snortin að hún man þennan dag eins og gerst hafi í gær.“

Skiltagerð með börnum

Sýningin opnar sjálf á laugardaginn klukkan 14 en á sunnudag og fimmtudag fyrir kvennafrídaginn, þann 24. október, mun Linda stýra smiðjum með börnum þar sem hún fyrst les upp úr bókinni og fer yfir sögu dagsins og aðstoðar svo börn og fjölskyldur þeirra við að gera skilti sem hægt er að nýta til að vekja athygli á jafnréttisbaráttunni.

„Ég vinn myndirnar mínar mjög hefðbundið, ég mála þær og teikna þær. Þannig að ég var búin að vera í samskiptum við Borgarbókasafnið um að sýna einhvern tíma skissurnar og frummyndirnar af bókinni, og við ákváðum að gera það núna í tilnefni að það eru fimmtíu ár frá kvennafrídeginum.“

Á vef Borgarbókasafnsins er gefið viðmið um að viðburðurinn sé fyrir börn á aldrinum níu til tólf ára en Linda segir aldursbilið líklega aðeins breiðara á smiðjunum á opnun. Viðburðurinn henti þó ólíklega þeim yngstu.

Vel tekið erlendis

Linda lærði í Bandaríkjunum og hefur verið með annan fótinn þar allt síðan hún flutti aftur heim 2010. Bókina vann hún með bandarískum útgefanda og því kom bókin fyrst út þar í mars 2023 og svo á Íslandi í október, á sama tíma og stórt kvennaverkfall fór fram. Bókin hefur vakið mikla athygli og er komin út á ensku, íslensku og þýsku. Á kvennafrídaginn í ár kemur svo hún út á japönsku.

„Mér finnst ótrúlega mikill heiður að fá að segja þessa sögu. Ég var ekki fædd þegar kvennafrídagurinn var en hef alist upp við að heyra hversu þýðingarmikill þessi dagur var fyrir kvennabaráttuna. Þessi bók er auðvitað til að heiðra þær sem ruddu brautina. Það þurfti svo margar konur til þess að knýja fram einhverjar breytingar á jafnrétti. Það er bara rosalegur heiður að fólk utan landsins fái að heyra af þessum íslensku konum.“

Bókin hefur einnig hlotið fjölda verðlauna og er tilnefnd til þýsku barnabókarverðlaunanna í flokki sögutengdra barnabóka. Verðlaunin verða veitt 17. október og stefnir Linda á að vera á bókamessunni í Frankfurt þegar verðlaunin verða veitt.

„Þetta er mikill heiður og risastórt. Hún er ein sex bóka sem er tilnefnd í þessum flokki.“

Töluvert hefur verið kallað eftir því síðustu ár að stutt sé betur við barnabókaútgáfu.

„Okkur vantar að gefa út miklu fleiri og fjölbreyttar bækur fyrir allan aldur, og meiri stuðning við höfunda, bæði rit- og myndhöfunda,“ segir Linda sem sjálf er í félaginu Fyrirmynd sem er félag myndhöfunda.

„Við erum líka höfundar að bókunum, ekki bara að myndskreyta. Við höfum verið að reyna að vekja athygli á því að það þarf líka að styrkja starfsemi myndhöfunda. Það hefur dálítið gleymst.“

Stuðningur mikilvægur

Hún segir flesta sammála um að vinna rit- og myndhöfunda barnabóka sé afar mikilvæg og því séu til dæmis listamannalaunin afar mikilvæg til að ná að gefa út nýjar bækur reglulega.

„Ísland er lítið land og það er bara ákveðinn fjöldi barna á landinu. Það selst bara ákveðinn fjöldi bóka þannig það er ekkert mikið sem situr eftir ef fólk fær ekki styrki til að vinna vinnuna sína.“


Tengdar fréttir

Kvennafrídagurinn í myndum

Allt lagðist á eitt við að gera Kvennafrídaginn og baráttufund við Arnarhól að mest sótta viðburði Íslandssögunnar. Ef að líkum lætur. Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari var á vettvangi.

Ein­stakar ljós­myndir sýna stemninguna á Kvenna­frí­deginum árið 1975

24. október 1975. Tugir þúsunda íslenskra kvenna ganga út af vinnustöðum sínum og safnast saman á einum stærsta útifundi Íslandssögunnar. Fjölmargir fundir eru haldnir um allt land sem eru einnig vel sóttir. Karlmennirnir sitja eftir og sinna ritstörfum, símavörslu, móttöku og barnagæslu. Kvennafrídagurinn er runninn upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.