Skoðun

Gefum ís­lensku séns – að tala ís­lensku við alla

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

„Besta leiðin til að læra tungumál er að fá að nota það.“

Verkefnið, Gefum íslensku séns minnir okkur á mikilvægi þess að tala íslensku við alla, líka þá sem eru nýkomnir til landsins. Margir Íslendingar skipta ósjálfrátt yfir í ensku, jafnvel áður en þeir vita hversu vel viðkomandi skilur eða talar íslensku. Það er vel meint, en getur í raun staðið í vegi fyrir því að fólk læri tungumálið og taki virkan þátt í samfélaginu.

Ábyrgð íslenskra málhafa - Við erum öll almennakennarar

Við, sem móðurmálsnotendur, berum ábyrgð á að skapa umhverfi þar sem íslenska er sjálfsagður samskiptamáti. Það krefst stundum þolinmæði og æfingar, en ávinningurinn er tvíþættur: nýir íbúar öðlast öryggi og máltaka tungumálsins styrkist. Almannakennari vísar í að það sé á okkar ábyrgð að inngilda nýbúa af erlendu bergi brotið í samfélagið. Þannig verða þau þátttakendur og samfélagslegur ábati vex.

Hreimur er heimur

Við þurfum líka að þjálfa okkur í að hlusta á ólíka íslensku. Tungumálið verður ríkara með mismunandi blæbrigðum og hreim. Með því að sýna jákvætt viðhorf til fjölbreyttrar íslensku styrkjum við bæði sjálfstraust þeirra sem eru að læra og auðveldum sveigjanleika í samskiptum.

Samfélagsleg ábyrgð

Að tala íslensku við alla er ekki aðeins menningarlegt val heldur samfélagsleg skuldbinding. Það er á okkar ábyrgð að viðhalda íslenskunni og á meðan íslenskan er opinbert mál hér á landi er það á ábyrgð samfélagsins alls að bjóða hana fram, þannig lærist málið. Rannsóknir sýna að fólk er líklegast til að læra tungumálið ef það fær að nota það í daglegu amstri, úti í búð, í grillveislum og samtali.

Með því tryggjum við að íslenska haldi áfram að vera lifandi, notað og aðgengilegt tungumál fyrir alla sem vilja búa hér.

Höfundur er verkefnastjóri Gefum íslensku séns á Ísafirði.




Skoðun

Sjá meira


×