Íslenski boltinn

Viður­kennir að vítið sem Víkingur fékk hafi ekki átt að standa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Víkingar skoruðu úr vítaspyrnu sem hefði ekki átt að standa.
Víkingar skoruðu úr vítaspyrnu sem hefði ekki átt að standa. Vísir/Diego

Þóroddur Hjaltalín, fyrrverandi dómari og starfsmaður á innanlandssviði Knattspyrnusambands Íslands, hefur staðfest að vítaspyrnan sem Víkingur fékk í 2-1 sigri sínum á Fram í Bestu deild karla hefði ekki átt að standa.

Þetta staðfesti Þóroddur í viðtali við Fótbolti.net. Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdi leik nágrannaliðanna fyrrverandi í Víkinni. Hann mat það svo að Freyr Sigurðsson hefði brotið á Karli Friðleifi Gunnarssyni innan vítateigs.

„Þetta er því miður röng ákvörðun,“ segir Þóroddur og bætir við að Freyr hafi verið „á undan í boltann og ekki brotlegur.“

Þetta er ekki fyrsta „gefins“ vítaspyrnan sem Víkingur fær í sumar í 3-2 sigri liðsins á KR féll Valdimar Þór Ingimundarson. Jóhann Ingi Jónsson dæmdi þann leik.

Það var ekki aðeins dómurinn sem Framarar voru ósáttir með heldur var vítaspyrnan tvítekin þar sem Viktor Freyr Sigurðsson markvörður var sagður hafa farið af línu sinni áður en hann varði spyrnu Helga Guðjónssonar.

Þóroddur segir dómarateymið hafa tekið rétta ákvörðun þar sem Viktor Freyr hafi verið „klárlega kominn af línunni.“ Ástæðan fyrir því að Viktor Freyr tók skref á móti Helga var sú staðreynd að framherjinn fyrrverandi sem nú spilar í bakverði hikaði er hann hljóp að boltanum.

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var sendur af velli í leiknum. Hann vildi meina að Helgi hefði stöðvað er hann hóf aðhlaup sitt. Þorvaldur tók ekki í sama streng.

„Það er ekki hægt að setja út á þetta aðhlaup. Í lögunum stendur að gabbhreyfing í aðhlaupinu sé leyfileg.“

Eftir sigurinn er Víkingur með 45 stig á toppi deildarinnar á meðan Fram er í 6. sæti með 29 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×