Innlent

Næsta skref að tryggja að próf leigu­bíl­stjóra verði al­farið á ís­lensku

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eyjólfur Ármannsson Innviðaráðherra vonar að sátt muni skapast um leigubílamarkaðinn með breytingunum.
Eyjólfur Ármannsson Innviðaráðherra vonar að sátt muni skapast um leigubílamarkaðinn með breytingunum. Vísir/Anton Brink

Öryggi farþega í íslenskum leigubílum verður tryggt með innleiðingu stöðvarskyldu að nýju og þá stendur til að meirapróf sem leigubílstjórar þurfi að taka verði alfarið á íslensku. Þetta segir innviðaráðherra sem lagði í gær fram frumvarp um breytingu á lögum um leigubílaakstur.

Í frumvarpi innviðaráðherra er gert ráð fyrir því að svokölluð stöðvarskylda verði tekin upp að nýju en skyldan var afnumin með lögum árið 2023. Þannig verður ekki lengur leyfilegt að reka eigin leigubifreiðastöð, það er sinn eigin leigubíl, án starfsleyfis annarrar leigubifreiðastöðvar. 

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að af 993 skráðum leigubílstjórum reki 188 eigin stöðvar án sérstaks leyfis. Alls séu 32 leigubifreiðastöðvar með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu. 

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir nauðsynlegt að breyta lögunum. „Það er til að auka eftirlit með leigubífreiðastjórunum og eftirlitsstöðvar er annars eðlis en eftirlit Samgöngustofu, stjórnvalds. Það er öðruvísi samband milli stöðvar og leigubifreiðastjóra og milli Samgöngustofu og bílstjóra.“

Svindl verði ekki leyft

Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti óánægður með núverandi fyrirkomulag á leigubílamarkaði. Ráðherra segist vona að breytingarnar skapi sátt um markaðinn.Næsta skref sé að tryggja að meirapróf sem lagt sé fyrir leigubílstjóra verði alfarið á íslensku.

„Í Noregi er það þannig að prófið er tekið á norsku og í Danmörku er það tekið á dönsku. Ég tel eðlilegt að við tökum prófið á íslensku. Þetta er mikilvægt þjónustustarf við íbúa þessa lands, aldraða og öryrkja og fleiri. Kjarnaþjónustuhópur og við tölum ennþá íslensku hér á landi.“

Hann segist ekki óttast að leigubílstjórum fækki í kjölfarið, ekki sé verið að innleiða neinar fjöldatakmarkanir. „Ég bara vonast til þess að allir geti staðist það próf. Við ætlum líka að fara að skoða það, við höfum heyrt sögusagnir að það hafi verið stórkostlegt svindl á prófunum, að það sé verið að taka myndir af spurningum og senda út í bæ og fá svo svör til baka. Það er líka atriði sem við ætlum að skoða sérstaklega og þá er eðlilegt að þeir sem leyfin eru að renna út fari þá aftur í próf. Við ætlum ekki að leyfa svindl í framtíðinni.“


Tengdar fréttir

Ráðherra vill að leigu­bíls­stjórar tali ís­lensku

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra var gestur Bítisins og ræddi þar um meðal annars um ný leigubílalög. Hann segir fyrri lagasetningu um leigubíla vera algert klúður. Þá vill Eyjólfur að meirapróf, sem leigubílsstjórar þurfi að taka, verði alfarið á íslensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×