Erlent

Lát­lausar sprengju­á­rásir á Gasa í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ísraelsmenn hafa verið sakaðir um að vilja gera Gasa-borg algjörlega óbyggilega.
Ísraelsmenn hafa verið sakaðir um að vilja gera Gasa-borg algjörlega óbyggilega. Getty/Anadolu/Abu Riash

Ísraelsher gerði látlausar sprengjuárásir á Gasa borg í nótt og óstaðfestar fregnir herma að innrás á jörðu niðri sé nú hafin og að til standi að hernema alla borgina.

Að auki eru Ísraelar sagðir hafa gert árásir á miðhluta Gasa svæðisins, hvert þúsundir íbúa Gasa borgar hafa einmitt flúið síðustu daga. 

Yfirvöld í Palestínu segja að tala fallinna og særða hækki með hverri klukkustundinni. 

Hinar auknu árásir þykja merki um að innrás í Gasa borg sé yfirvofandi, sé hún ekki nú þegar hafin. Árásirnar hófust einnig aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafði hitt Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraela í Jerúsalem. 

Þar lofaði Rubio Ísraelum ævarandi stuðningi Bandaríkjamanna. 

Varnarmálaráðherra Ísraels, Israel Katz, sagði á safélagsmiðlasíðu sinni í morgun að Gasa brenni, og að Ísraelar muni ekki hætta aðgerðum sínum fyrr en takmarkinu sé náð. 

Ísraelsher segir að um 250 þúsund manns hafi flúið borgina síðustu daga en enn er þó talið að nokkur hundruð þúsund séu enn á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×