Skoðun

Vöru­svik Rafmenntar í nafni Kvikmyndaskóla Ís­lands og af­leiðingar þeirra

Böðvar Bjarki Pétursson og Friðrik Þór Friðriksson skrifa

Í vikunni fyrir páska, 10. til 13. apríl síðastliðinn, kom flokkur manna á vegum framhaldsskólans Rafmenntar, án viðvörunar, inn í húsakynni Kvikmyndaskóla Íslands að Suðurlandsbraut 18 og tæmdi þar út allt sem þeir töldu verðmætt, tæki, tölvur og búnað. Á þessum tíma var Kvikmyndaskólinn rúmlega 100 manna vinnustaður starfsmanna, nemenda og kennara. Framkvæmdin var bæði óvænt og óviðfelldin þar sem farið var inn á læstar skrifstofur og tölvur og tæki tekin. - Aðgerðir rafiðnaðarmannanna voru réttlættar með því að þeir hefðu keypt upp allar eignir skólans úr þrotabúi fyrir 15 m.kr.

Sannleikurinn kemur í ljós, vinnustaður lagður niður

Í beinu framhaldi tóku rafiðnaðarmenn yfir heimasíður skólans og tölvupóstföng starfsmanna þar sem lokað var á alla óæskilega. Heimasíðu Kvikmyndaskólans með öllu sínu regluverki og gæðakerfum, sögu og skráningu, var hins vegar haldið úti eins og allt væri óbreytt í starfseminni. Þannig hefur það verið í allt sumar, lengst af með nöfnum kennara, rannsóknaraðila og meðlima í ráðum og nefndum. Fulltrúar akademískra stöðufulltrúa KVÍ, prófessorar við HÍ, við mótmæltu þessu í fjölmiðlum í ágúst sem siðlausri framkomu, að starfsemi og nöfn væru auglýst án þess að nein virkni eða samningar lægju þar að baki. Í framhaldinu voru flest nöfn tekin út. Engir kennarar eru nú skráðir á heimasíðu skólans.

KVÍ/IFS hefur haldið úti 14 stöðugildum að meðaltali síðastliðin 15 ár (launþegar/fastir verktakar) og að auki hafa verið ráðnir yfir 50 leiðbeinendur sem eru virkir í faginu í hlutastörf á ári hverju. Einn helsti lykillinn að gæðum skólans hefur verið aðgengi nemenda að starfandi fagfólki, kvikmyndagerðamönnum og leikurum, og helst mörgum, því það er svo misjafnt hvaða kennari hentar hverjum nemenda. Launagreiðslur hafa alltaf verið stærsti hluti rekstrar og á þessu tímabili, frá 2010 og út árið 2024, eru þær yfir 2 milljörðum króna. Yfir 70% af þessum launum hafa runnið til hundruða listamanna sem starfað hafa hjá skólanum í gegnum árin. Sjá nánar í útgáfum á heimasíðu.

Staðfest er að öllu föstu starfsfólki skólans hefur verið sagt upp og ekki hefur verið endurráðinn nema einn maður í tækja- og húsnæðisumsjón. Engin Ása á skrifstofunni (15 ár), engin Ágústa í Kjarnanum (10 ár), engin Oddný í Kvikmyndasögunni (4 ár), engin Inga Rut í námsráðgjöf og gæðastjórnun (25 ár). Engin Vera í Kjarnanum (2 ár), Engin Stacy, Siggi, Hildur, Elvar í móttökunni (X ár), engin Anna í gæðastjórnun (4 ár), engin Erna í kynningarmálum (8 ár). Engin í 15-50 í öðrum föstum stöðum í akademíunni sem skólinn hefur haldið úti síðustu ár og áratugi. Allt starfsmanna- og launakerfi IFS/KVÍ er þurrkað út og yfir 70 ára atvinnureynslu er kastað á glæ.

Í staðinn kynnir heimasíðan nú fimm miðaldra og eldri karlmenn sem einu starfsmenn skólans. Enginn þeirra hefur stýrt listaskóla og rektorinn hefur aldrei komið nálægt kvikmyndagerð. Tveir nýráðinna fagstjóra hafa ekki háskólapróf. Þessum hópi virðist ætlað að halda uppi vinnustaðnum. Hafa ber í huga að það stendur skýrt í reglum skólans að rektor skuli hafa háskólapróf frá viðurkenndum kvikmyndaháskóla og meiriháttar feril á sviði kvikmyndagerðar. Rektorar skólans frá árinu 2003, þegar skólinn fékk fyrstu viðurkenninguna frá stjórnvöldum, hafa verið Guðmundur Bjartmarsson kvikmyndatökumaður, Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Ásdís Thoroddsen leikstjóri, Hilmar Oddsson leikstjóri, Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri og framleiðandi og Börkur Gunnarsson leikstjóri. Staðgenglar rektors síðastliðið ár hafa verið Hlín Jóhannesdóttir framleiðandi og Anna Þórhallsdóttir gæðastjóri. Þór Pálsson, sem titlaður er rektor á heimasíðunni og hefur sérsviðið vélstjórn og rennismíði, á einstaklega illa heima í þessum hópi.

Svikin við kennara og nemendur

Rafiðnaðarmenn kynntu fyrir nemendum og kennurum að allt yrði óbreytt. Ógreidd laun yrðu greidd upp og meiri staðfesta kæmist í reksturinn. Mikil áhersla var lögð á að kennsluskráin yrði sú sama og virðing yrði borin fyrir kerfum skólans, svo sem hinni “akademisku klukku” sem skólinn hefur af nokkurri nákvæmni starfað samkvæmt frá því haustið 2022. - Hér hefur ekkert staðið af því sem var lofað. Yfir 30 lausráðnir kennarar á vorönn 2025 hafa tapað launum í vor, margir háum upphæðum. 18 fastar stöður hafa verið lagðar niður og fjölskyldur misst lífsviðurværi. - Umgengni við gæðakerfi skólans og regluverk er slík að þau hafa öll verið aftengd samhliða uppsögn starfsmanna.

Svikin við nemendur eru ekki minni, og þar er bæði átt við útskrifaða nemendur, núverandi og framtíðarnemendur. Því var lofað að engin breyting yrði á kennsluskrá og gamli skólinn myndi haldast. Nú liggur fyrir að náminu og umgjörð þess hefur verið gjörbreytt, stækka á bekki og draga úr kennslu, aðgengi að náminu minnkar og menntunarkröfur leiðbeinenda eru lækkaðar.

Samfella í starfsemi er grunngildi skólastarfs. Trygg samfelld gæði, þar sem ákveðinn kjarni helst óbreyttur árum og áratugum saman, er það sem einkennir alvöru skólahald. Þetta á við um Háskólann í Reykjavík, Tækniskólann, Háskóla Íslands og alla raunverulega skóla. Nemandi úr Bókmenntafræði úr Heimspekideild Háskóla Íslands 2024 getur fundið samhljóm með nemanda sem útskrifast hefur fimm, tíu eða jafnvel 40 árum fyrr. Góðir skólar halda utanum klassíska þekkingu sem stöðugt er reynt að þróa áfram með fremur þrauthugsuðu regluverki skólasamfélagsins.

Þannig hefur það verið hjá Kvikmyndaskóla Íslands. Nemandi útskrifaður frá KVÍ árið 2009 úr núverandi fjögurra deilda kerfi skólans, D1 Leikstjórn/Framleiðsla, D2 Skapandi tækni, D3 Handrit/Leikstjórn eða D4 Leiklist, getur fundið skýran samhljóm með nemanda útskrifuðum úr einhverri þessara deilda í desember 2024. Þess vegna var niðurstaða úr úttekt óháðra erlendra sérfræðinga haustið 2022, þar sem staðfest var að við Kvikmyndaskólann færi fram nám á háskólastigi (5. skólaþrep), svo mikilvæg. Það staðfesti það sem stjórnendur skólans hafa haldið fram, að skólinn uppfyllti öll skilyrði ECTS (European Credit Transfer System) og hefði gert það allt frá 2009. Sex hundruð stúdentar sem útskrifast hafa frá skólanum á þessu tímabili eiga því rökstuddan rétt á 120 eininga háskóladiplómu.

Inngrip Rafmenntar í þessa atburðarás, með niðurfærslu á námi og niðurbroti á starfsemi, verður að teljast sérstaklega óskynsamleg gagnvart því að varðveita rétt útskrifaðra nemenda, sem og annarra.

Niðurlagning Kvikmyndaskóla Íslands í boði Rafmenntar, spurningar til forsvarsmanna

Það liggur fyrir að Kvikmyndaskóli Íslands/Icelandic Film School hafa frá haustinu 2021 starfað að fullu samkvæmt háskólaviðmiðum eins og staðfest var í úttekt óháðu erlendu sérfræðinganna haustið 2022. Meðal annars hefur skólinn haldið úti 4 rannsóknarstöðum, ásamt því að innleiða evrópsk regluverk í starfsemina. Háskólaviðmið voru síðan áfram staðfest í innri úttekt sem gerð var í desember 2024.

Við meint kaup Rafmenntar á öllum eignum skólans var allt þetta ferli rofið. Skólinn var strax niðurfærður gagnvart LHÍ með yfirlýsingum um að KVÍ væri framhaldsskóli. Námslánahæfið var fengið með því að endurskilgreina námið sem handverks- og tækninám en ekki sem listnám. Öllu starfsfólki var sagt upp og engin saga varðveitt. Ákvörðun var strax tekin um að minnka skólann með einungis einni inntöku á ári. Staðfestur er niðurskurður í kennslumagni ásamt fjölgun nemenda í bekkjum. Stjórnsýsla Kvikmyndaskólans hefur að fullu verið innlimuð í Rafmennt þar sem Kvikmyndaskólinn er meðhöndlaður sem undirdeild í framhaldsskóla.

Nú kemur í ljós að umsóknir eru langt undir væntingum þrátt fyrir kostnaðarsamar auglýsingar og fjölmiðlaumfjöllun í allt sumar. - Engar vísbendingar eru um að umsóknum muni fjölga við næstu inntöku haustið 2026, þegar það verður enn frekar ljóst að um verulega gæðaminnkun er að ræða á náminu. Nemendur eru ekki kjánar. Framhaldsskólanemendur sækja frekar í ókeypis ríkisskólana og stúdentar láta ekki “plata sig” lengur til að sækja nám á svokölluðu 4. þrepi framhaldsskóla sem hvergi fæst metið. Meintar viðræður við Háskólann á Bifröst hafa enga undirstöðu þegar búið er að niðurfæra nám Kvikmyndaskólans og kippa gæðakerfum úr sambandi. Slíkt samstarf yrði að vera grundvallað á nýrri úttekt sem Rafmennt getur ekki staðist með þeim niðurskurði og breytingum sem hafa átt sér stað. Að auki þá er þar um að ræða margra ára ferli. Niðurstaðan er því sú að þrátt fyrir að Rafmennt ætli að halda áfram sinni einkennilegu starfsemi, þar sem þeir “þykjast” vera Kvikmyndaskóli Íslands, þá er skólinn í raunverulegu lokunarferli, því til framtíðar þá munu engir nemendur sækja námið.

Rafmennt er í eigu Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) og Samtaka Rafverktaka (SART) til helminga. Hér er um að ræða launþega- og atvinnurekendasamtök í rafiðnaði. Helsta hlutverk Rafmenntar er að sjá um sveinspróf í rafiðnaðargreinum. Formenn þessara samtaka heita Jakob Tryggvason og Pétur H. Halldórsson og þeir verða að kallast ábyrgir fyrir þeirri ákvörðun að kaupa og starfrækja Kvikmyndaskóla Íslands og fella þannig kvikmyndagerð og leiklist undir rafiðnað. Eftirfarandi spurningar er ástæða til að leggja fyrir þá.

a. Í ljósi þess að þið kaupið Kvikmyndaskólann úr þrotabúi, þangað sem hann var kominn vegna rekstrarerfiðleika, hvers vegna tölduð þið ykkur geta gert betur en fyrri eigendur við rekstur skólans? Var kannað hvort það væri raunverulegur rekstrargrundvöllur fyrir skólann á forsendum sem unnið hefur verið eftir, að niðurfæra námið á framhaldsskólastig, fækka nemendum og skera niður kennsluhlutfall?

b. Í ljósi þess að hér er um “óvinveitta yfirtöku” að ræða, þar sem ekkert samband hefur verið haft við fyrrum eigendur og fullri hörku hefur verið beitt í öllum athöfnum, samanber hvernig skólinn var tæmdur, hvernig öllu starfsfólki hefur verið sagt upp og hvernig reynt er að leggja steina í götu Icelandic Film School, þá er ástæða til að spyrja eigendur Rafmenntar: Finnst ykkur við hæfi að atvinnurekenda- og launþegasamtök séu að standa í óvinveittum yfirtökum og taka þátt í að leggja niður fjölmenna vinnustaði?

c. Hafið þið ekki skilning á því að það er ósiðleg athöfn að auglýsa Kvikmyndaskóla Íslands með sín gæðakerfi, háskólareglur, alþjóðlegar viðurkenningar og akademíska starfsmenn mánuðum saman, þegar fyrir liggur að Rafmennt ætlar sér ekki að starfa eftir þessu skipulagi? Hafið þið ekki einnig skilning á því að undirritaðir kalla það vörusvik þegar Rafmennt segist bjóða upp á jafngilt nám, en sker um leið niður bæði kennslumagn, lækkar kröfur á kennara, fjölgar í bekkjum og notar að auki kennsluskrá í óleyfi?

d. Hafið þið ekki skilning á því að verðmæti felist í þeim niðurstöðum sem Kvikmyndaskólinn hefur fengið í úttektum erlendra sérfræðinga og að hið akademíska skipulag sem þar hefur verið komið á sé eitthvað sem rétt sé að varðveita? Jafnframt að alþjóðlegar viðurkenningar, eins og Kvikmyndaskóli Íslands hefur fengið sem meðlimur í Cilect heimssamtökum kvikmyndaháskóla og Geect Evrópusamtökunum, sé eitthvað sem þurfi að vernda? Gerið þið ykkur grein fyrir að með því að koma á stjórnsýslu Rafmenntar og niðurfæra námið þá eruð eruð þið að rjúfa öll þessi sambönd?

Næstu skref

Undirritaðir hafa ítrekað óskað eftir viðræðum við Rafmennt og eigendur þess um hvernig megi lágmarka skaðann af þeirri atburðarás sem átt hefur sér stað. Þær beiðnir standa enn.

Böðvar Bjarki Pétursson stjórnarformaður Icelandic Film School

Friðrik Þór Friðriksson framkvæmdastjóri Icelandic Film School




Skoðun

Sjá meira


×