Lífið

Ó­víst hvort Ís­land verði með í Euro­vision

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Væb hópurinn á úrslitakvöldi Eurovision í maí.
Væb hópurinn á úrslitakvöldi Eurovision í maí. Getty

Stjórn Rúv hefur gert fyrirvara um þátttöku Íslands í Eurovision á næsta ári og ekki liggur fyrir hvort Ísland verði með líkt og staðan er núna. Þetta staðfestir stjórnarformaður Rúv í samtali við Vísi. Ástæðan er sú að nú stendur yfir samráðsvinna á vettvangi EBU hvað lýtur að þátttöku Ísraels í keppninni.

Tekin verður endanleg ákvörðun um þátttöku Íslands þegar niðurstaða liggur fyrir hvað varðar þátttöku Ísraels, en frestur til að staðfesta þátttöku hefur verið framlengdur fram í desember.

Óvíst hver niðurstaðan verður

„Það var aðalfundur hjá Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, í júlí og þar komu fram, meðal annars frá okkur, gagnrýnisraddir um að Ísrael fengi að vera með. Það var ákveðið á þeim fundi að hefja eins konar samráðsferli á milli sjónvarpsstöðvanna,“ segir Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður Rúv í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Rúv vildi Ísraels­menn burt en þeir sluppu með skrekkinn í bili

Ekki hafi verið gengið til atkvæða eða tekin nein ákvörðun á þeim fundi, heldur hafi niðurstaðan verið sú að það þurfi að fara fram samtal um málið.

„Það var skipaður erindreki sem átti að ræða við stöðvarnar. Þegar svo kemur í ljós núna að það var að renna út tilkynningarfresturinn um þátttöku á næsta ári, þá sögðum við nei, við erum ekki tilbúin í það nema með fyrirvara. Og fyrirvarinn er um að þetta samráðsferli um Ísrael verði viðunandi, leiði til viðunandi niðurstöðu fyrir okkur,“ segir Stefán.

Í framhaldi af þessu hafi EBU ákveðið að framlengja frestinn til að tilkynna um þátttöku fram í desember.

Ísland ekki eina þátttökulandið sem hugsi sig um

„Nú veit ég að það eru margir að hugsa sinn gang varðandi það hvort þeir vilji hafa Ísrael með í keppninni eða ekki og það þarf ekki að tilkynna þátttöku fyrr en í desember. En við munum auglýsa eftir íslenskum þátttakendum í Söngvakeppni, en með fyrirvara um þátttöku í Eurovision. Við vitum bara ekki hvort af því verður,“ segir Stefán.

Þegar samráðsferli innan EBU er lokið muni stjórn Rúv taka endanlega ákvörðun í stjórninni. „En við erum búin að gera öllum það ljóst að það er fyrirvari á okkar aðkomu. Og það er bara mjög mikilvægt signal inn í þessa umræðu,“ segir Stefán.

„En ég þori ekki að segja til um það, ef að til kemur að þurfi að taka ákvörðun, af eða á með Ísrael, hvernig stjórnin í heild mun greiða atkvæði, ég þori ekki að segja til um það. Ég veit bara að meiri hlutinn, við vorum algjörlega samstíga að setja þennan fyrirvara.“

Sjálfur hefur Stefán lýst sínum persónulegu sjónarmiðum en sjálfum finnst honum að Ísland eigi ekki að vera með ef Ísrael fær að vera með.

„En núna er þetta bara í þessu ferli og ég veit það að það eru fleiri en við og það eru fleiri en einn og fleiri en tveir sem eru virkilega hugsi yfir þessu og vilja ráða ráðum sínum,“ segir Stefán.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og „jafnvel“ Framsóknar á öðru máli

Þegar hafa Slóvenar gefið í skyn að þeir muni að öllum líkindum ekki vera með í Eurovision ef Ísrael verður meðal þátttakenda. „Það eru fleiri veit ég, menn eru að hringjast á og við erum, og menn hafa fengið að heyra það, allir sem eru í þessum samtökum, að Ísland er með þennan fyrirvara.“

Er einhugur um þetta innan stjórnar RÚV eða eru skiptar skoðanir uppi um þetta?

„Það hefur verið þannig að minni hlutinn, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og jafnvel Framsóknarflokksins, hafa sagt að þetta sé utanríkispólitískt mál og ráðherrarnir þurfi að segja hvað þeir vilja. En við höfum bara ekki tekið það í mál í meirihlutanum, þetta er sjálfstæð stofnun og samkvæmt samþykktum Ríkisútvarpsins og lögum þá fer stjórn með æðsta vald í málefnum Ríkisútvarpsins. Það eru ekki tilskipanir frá ráðherrum um einstök mál. Við höfum verið mjög hörð á þessu prinsippi í meirihlutanum,“ segir Stefán.

Honum finnist sjálfum að stjórn Rúv eigi að taka sjálfstæða ákvörðun um þátttöku í Eurovision eins og annað. Það sé hlutverk stjórnarinnar að axla þá ábyrgð að fara með stjórn stofnunarinnar og það sé tilgangurinn með ohf. forminu beinlínis, að ráðherrar séu ekki að ráðskast með einstaka ákvarðanir stofnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.