Erlent

Fjallar um af­stöðu Elísa­betar til Brexit og hvernig Kamilla varðist á­rás

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kamilla varð drottning þegar Elísabet féll frá.
Kamilla varð drottning þegar Elísabet féll frá. Getty/Max Mumby

Elísabet II Englandsdrottning var á móti Brexit og vildi vera áfram innan Evrópusambandsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Valentine Low, sem fjallaði um konungsfjölskylduna fyrir The Times.

Í bókinni, Power and the Palace, er einnig greint frá því hvernig Kamilla drottning varði sig gegn kynferðisbrotamanni á 7. áratug síðustu aldar. Kamilla er sögð hafa trúað Boris Johnson, þáverandi borgarstjóra Lundúna, frá atvikinu.

„Ég gerði eins og móðir mín hafði kennt mér. Ég tók af mér skóinn og sló hann í hneturnar með hælnum,“ er Kamilla sögð hafa sagt Johnson.

Atvikið átti sér stað um borð í lest á leið til Lundúna en samkvæmt Low hafði Kamilla uppi á lögreglumanni við komuna á Paddington-lestarstöðinni og vísaði honum á árásarmanninn.

Elísabet heitin var þekkt fyrir það að tjá sig ekki opinberlega um pólitík en að sögn Low var hún persónulega á móti Brexit, þrátt fyrir að þykja regluverk Evrópusambandsins þungt í vöfum. Þá er Elísabet sögð hafa átt í góðum samskiptum við Harold Wilson og John Major en sambandið við Margaret Thatcher hafi verið erfiðara.

BBC hefur tekið saman nokkrar uppljóstranir úr bókinni en meðal þeirra má nefna að það virðast hafa verið stjórnvöld frekar en konungshöllin sem vildi gera sem mest úr krýningu Karls III eftir andlát Elísabetar.

Krýningin og hátíðarhöldin í kringum hana kostuðu á endanum 72 milljónir punda, jafnvirði tæplega tólf milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×