Innlent

Inn­kalla ferskan kjúk­ling frá Mat­fugli vegna gruns um salmonellu

Kjartan Kjartansson skrifar
Matfugl segir kjúklinginn hættulausan fylgi neytendur leiðbeiningum um meðhöndlun hans. Myndin er úr safni.
Matfugl segir kjúklinginn hættulausan fylgi neytendur leiðbeiningum um meðhöndlun hans. Myndin er úr safni. Getty

Matfugl hefur innkallað átta vörur með ferskum kjúklingi vegna gruns um salmonellusmit. Innköllunin er sögð gerð í varúðarskyni og kjúklingurinn hættulaus sé rétt með hann farið.

Kjúklingurinn var seldur undir vörumerkjum Ali, Bónus, Euroshopper og FK í verslunum Bónuss, Krónunnar, Hagkaupa, Fjarðarkaups, Prís, Kassans og Jónsabúðar, að því er segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Kjötið sem er innkallað er úr tveimur framleiðslulotum með pökkunardaga 28. og 29. ágúst. Vörurnar sem eru innkallaðar eru heill kjúklingur, bringur, lundir, lærakjöt, bitar, kryddlegnir leggir, bringur og heill fugl.

Neytendur sem hafa keypt kjúklinginn eru beðnir um að skila honum í þá verslun sem hann var keyptur í eða beint til Matfugls í Mosfellsbæ.

Í tilkynningu Matfugls vegna innköllunarinnar er fullyrt að kjúklingurinn sé hættulaus ef neytendur fari eftir áprentuðum leiðbeiningum þegar þeir elda hann. Í þeim felst að steikja kjúklinginn í gegn og passa að blóðvökvi fari ekki í aðra matvöru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×