Erlent

Felldu tals­mann hernaðararms Hamas

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá jarðarför á Gasa í dag, þar sem fjölmargir hafa fallið í árásum Ísraela.
Frá jarðarför á Gasa í dag, þar sem fjölmargir hafa fallið í árásum Ísraela. AP/Jehad Alshrafi

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, segir að Abu Obeida, talsmaður al-Qassam-sveita Hamas-samtakanna, hafi verið felldur í loftárás í gær. Heilbrigðisstarfsmenn á Gasaströndinni segja að minnsta kosti 43 Palestínumenn liggja í valnum frá því í gær. Flestir þeirra í Gasaborg, sem Ísraelar hafa lýst yfir að sé nú átakasvæði.

Í yfirlýsingu segir Katz að talsmaðurinn hafi verið sendur til „botns helvítis“ ásamt öðrum föllnum andstæðingum Ísrael frá Íran, Gasa, Líbanon og Jemen. Ísraelar hafa ráðið marga af æðstu leiðtogum Hamas-samtakanna af dögum á undanförnum tveimur árum.

Al-Qassam-sveitirnar eru hernaðararmur Hamas samtakanna. Dauði Abu Obeida hefur ekki verið staðfestur af þeim enn sem komið er.

Ísraelski herinn segir í yfirlýsingu að Obeida hafi verið einn af síðustu leiðtogum Hamas, sem stýrði samtökunum fyrir árásirnar á Ísrael þann 7. október 2023. Hann hafi um árabil komið að því að semja og dreifa áróðri Hamas-samtakanna og hafi í raun verið andlit hryðjuverkasamtakanna.

Mynd af Abu Obeida, sem ísraelski herinn birti í dag.

AP fréttaveitan hefur eftir heilbrigðisstarfsmönnum á Gasaströndinni að fjöldi fólks hafi dáið í árásum Ísraela um helgina. Margir þeirra hafi verið að sækjast eftir neyðaraðstoð þegar skotið var á þá.

Fyrr í dag var sagt frá því að ráðamenn í Ísrael ætluðu að draga úr flæði neyðaraðstoðar til Gasaborgar en til stendur að fara í umfangsmikla hernaðaraðgerð þar. Þúsundir hafa flúið frá borginni en Al-Jazeera segir fjölmarga halda þar til enn.

Margir eru of illa á sig komnir til að flýja og þá liggur ekki fyrir hvert þeir sem hafa flúið geta farið.

Sjá einnig: Ætla að hægja á eða stöðva flæði neyðaraðstoðar

Ísraelar hafa á undanförnum vikum verið með mikla viðveru hermanna í útjaðri Gasaborgar og í Jabailiya-flóttamannabúðunum, í undirbúningi fyrir umfangsmeiri aðgerðir í borginni.

Að minnsta kosti 63.371 Palestínumaður hefur dáið á Gasaströndinni frá því hernaður Ísraela hófst þar, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem stýrt er af Hamas.

Felldu forsætisráðherra Húta

Leiðtogar Húta í Jemen tilkynntu í gær að Ahmed al Rahawi, forsætisráðherra hópsins og aðrir ráðherrar og háttsettir meðlimir, hefðu verið feldir af Ísraelum í loftárás á fimmtudaginn. Sú árás var gerð þegar ríkisstjórnarfundur stóð yfir, nokkrum dögum eftir að Hútar skutu eldflaug að Ísrael, eins og þeir hafa ítrekað gert á undanförnum árum.

Rahawi var, samkvæmt frétt Sky News, ekki í innsta hring leiðtoga Húta. Þess í stað var það á höndum hans og ríkisstjórnar hans að stýra yfirráðasvæði Húta í Jemen.

Hútar, sem notið hafa mikils stuðnings frá klerkastjórninni í Íran í gegnum árin, stjórna Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri eftir umfangsmikil átök við stjórnarher landsins sem hófust árið 2014. Átökin hafa leitt til hrikalegs mannúðarástands í Jemen, þar sem fátækt er mikil. Hungursneyð og smitsóttir hafa leikið í íbúa landsins grátt.

Síðan í nóvember 2023 hafa Hútar gert tugi loftárása á flutningaskip sem átt hafa leið um Rauðahafið. Hútastjórnin segir árásirnar hafa verið gerðar til að sýna Palestínumönnum samstöðu, skotunum sé beint að skipum með tengingar við Ísrael.

Bandaríkjamenn gerðu fyrr á árinu umfangsmiklar árásir sem beindust gegn Hútum. Þær árásir skiluðu að virðist ekki miklum árangri en Rahawi er æðsti meðlimur hópsins sem felldur er í árás síðan árásir Ísraela og Bandaríkjamanna hófust.

Árásum Húta á skip á Rauðahafi hefur þó fækkað en það hefur umferð skipa um svæðið einnig gert.

Abdul-Malik al-Houthi, leiðtogi Húta, hefur heitið því að fjölga árásum á Ísrael. Þetta var meðal þess sem hann sagði í ávarpi sem sýnt var í sjónvarpi á yfirráðasvæði Húta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×