Innlent

Hefur þekkt soninn lengur en ráð­herrann

Samúel Karl Ólason skrifar
Logi Einarsson, menningarráðherra.
Logi Einarsson, menningarráðherra. Vísir/Vilhelm

Logi Einarsson, menningarráðherra, segir skipun sonar Ölmu Möller, heilbrigðisráðherra, í stöðu formanns nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar her á landi hafa verið faglega. Hann sagðist þó skilja áhuga fjölmiðla og fólks á skipuninni.

„Staðreyndin er hins vegar sú að ég er búinn að þekkja Jónas í talsverðan tíma. Hann er auðvitað fullorðinn maður og ég er búinn að þekkja hann lengur en heilbrigðisráðherra.“

Logi sagðist í samtali við Bjarka Sigurðsson, fréttamann, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun, vita hvernig Jónas ynni og að hann treysti Jónasi fullkomlega.

Jónas Már Torfason, áðurnefndur sonur heilbrigðisráðherra, er lögmaður sem býr í Danmörku og starfar á lögmannsstofunni Plesner.

Sjá einnig: Menningarráðherra skipaði son heilbrigðisráðherra í formannsstörf

„Hann er afskaplega fær lögfræðingur. Hann er góður í stjórnsýslu og með bakgrunn í fjármálum, þannig að ég held að hann sé akkúrat rétti maðurinn og hann hafði svipaða sýn og ég.“

Logi telur mikilvægt að nefndin starfi hnökralaust svo kvikmyndaiðnaðurinn hér á landi geti gengið áfram og að á sama tíma sé gengið í skugga um að fjármálum ríkisins sé vel varið.

„Þetta var mín niðurstaða eftir faglegar vangaveltur.“

Hann sagði ráðninguna alls ekki tengjast því að Alma væri heilbrigðisráðherra Samfylkingarinnar og ítrekaði að störf nefndarinnar kæmu heilbrigðismálum ekkert við.

Það að Jónas sé búsettur í Danmörku muni ekki koma niður á störfum nefndarinnar. Það sé auðvelt að vinna þá vinnu sem nefndinni er ætlað milli svæða með nýrri tækni, eins og þekkist vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×