Erlent

Hamasliðar ganga að til­lögum um 60 daga vopna­hlé

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það myndi skipta íbúa Gasa sköpum ef samið yrði um 60 daga hlé á árásum og aukið magn hjálpargagna kæmist inn á svæðið.
Það myndi skipta íbúa Gasa sköpum ef samið yrði um 60 daga hlé á árásum og aukið magn hjálpargagna kæmist inn á svæðið. Getty/Anadolu/Moiz Salhi

Forsvarsmenn Hamas segjast hafa gengið að tillögum um vopnahlé á Gasa, sem fela meðal annars í sér 60 daga hlé á hernaðaraðgerðum Ísraels og lausn um tíu gísla.

Fulltrúar Hamas hafa fundað með sáttamiðlurum í frá Egyptalandi og Katar síðustu daga. Egyptar eru sagðir hafa tekið forystu í viðræðunum, enda eiga þeir mikið undir. Þeir hafa alfarið neitað að taka á móti íbúum Gasa, sem ísraelskir stjórnmálamenn hafa hótað að reka burtu af svæðinu.

Stjórnvöld í Ísrael sæta nú auknum þrýstingi en efnt var til fjölsóttra mótmæla í Tel Aviv og víðar síðustu helgi og boðað hefur verið til annarra mótmæla næsta sunnudag. Snúast þau aðallega að gagnrýni á áherslur ríkisstjórnarinnar og ekki síst að þeim hafi enn ekki tekist að endurheimta þá 20 lifandi gísla sem enn eru í haldi Hamas.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra hefur fyrir sitt leyti gagnrýnt mótmælendur harðlega og segir þá hafa styrkt samningsstöðu Hamas.

Til stóð að kynna tillögurnar sem Hamas hefur gengið að fyrir Ísraelsmönnum í gær en Netanyahu hefur áður sagt að stjórnvöld hafi ekki lengur áhuga á skammtímasamningum. Þau muni aðeins láta af hernaðaraðgerðum sínum gegn því að Hamas láti alla gísla lausa og leggi niður vopn.

Ráðamenn í Ísrael, sem hafa haft frammi hugmyndir um að hertaka Gasa-borg, standa þannig frammi fyrir nokkuð erfiðu vali en hafni þeir umleitunum sem fela í sér lausn gísla er einsýnt að óánægjan heima fyrir muni aukast til muna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×