Erlent

Leið­togar Hamas sagðir þokast nær því að sam­þykkja vopna­hlé

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar Gasa búa við verulegan skort og stöðugan ótta við loftárásir Ísraelsmanna.
Íbúar Gasa búa við verulegan skort og stöðugan ótta við loftárásir Ísraelsmanna. AP/Jehad Alshrafi

Leiðtogar Hamas funduðu í Istanbúl í gær til að ræða tillögur að vopnahléi og gáfu frá sér yfirlýsingu um að þeir ættu einnig í viðræðum við aðra hópa um sameiginlegt svar.

Samtökin eru sögð nálægt því að samþykkja vopnahlé en vilja tryggingu fyrir því að tímabundið hlé á átökum muni sannarlega leiða til þess að Ísraelsmenn láti alfarið af árásum sínum.

Ísraelsstjórn hefur fyrir sitt leyti gefið í á síðustu dögum og meðal annars gert fjölda loftárása sem eru sagðar hafa leitt til dauða yfir 250 Palestínumanna, þar á meðal margra barna og kvenna.

Erlendir miðlar hafa eftir heimildarmönnum að jafnvel harðlínumenn innan Hamas horfist nú í augu við nauðsyn þess að ganga að samningum við Ísrael, ef ekki nema til að gefa samtökunum tækifæri til þess að skipuleggja sig og ná vopnum sínum á ný.

Yfir 6.000 manns hafa látist í árásum á Gasa eftir að síðasta vopnahlé fór út um þúfur í mars síðastliðnum og þá hefur algjört ófremdarástand skapast á svæðinu vegna skorts á hjálpargögnum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að viðbrögð Hamas við vopnahléstillögum myndu koma í ljós innan 24 klukkustunda. 

Skoðanakannanir í Ísrael sýna mikinn stuðning við vopnahlé og möguleikar á því eru taldir hafa aukist þar sem Benjamin Netanyahu þykir hafa styrkt pólitíska stöðu sína og er því mögulega viljugri til hætta aðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×