Erlent

Fimm látnir eftir þyrluslys í Finn­landi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þyrla af gerðinni Robinson R44 Raven II eins og þær tvær sem hröpuðu til jarðar í Finnlandi í dag.
Þyrla af gerðinni Robinson R44 Raven II eins og þær tvær sem hröpuðu til jarðar í Finnlandi í dag. GEtty

Fimm eru látnir eftir að tvær þyrlur rákust saman og brotlentu skammt frá Eura í suðvesturhluta Finnlands. Þyrlurnar voru báðar á leið til finnska bæjarins Kokemäki til að taka þátt í viðburði flugklúbbs.

Finnski miðillinn Helsinki Times greinir frá því að þyrlurnar, sem eru af tegundinni Robinson R44, höfðu báðar lagt af stað frá Tallinn um morguninn. Samkvæmt finnsku lögreglunni og utanríkisráðuneyti Eistlands rákust þyrlurnar saman skömmu eftir hádegi og brotlentu í skóglendi. 

Samkvæmt rakningargögnum flugu þyrlurnar samhliða stærstan hluta ferðarinnar en hurfu af ratsjám um hálf eitt við Eura-flugvöll. Vitni lýsa því hvernig þyrlurnar flugu nærri hvor annarri áður en önnur breytti snögglega um stefnu og flaug utan í hina.

„Önnur þeirra féll eins og steinn,“ sagði Antti Marjanen sem er íbúi á svæðinu og hafði samband við neyðarlínuna.

Eistneskur athafnamaður meðal látinna

Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang og fundu þyrlurnar í um hundrað metra fjarlægð frá hvor annarri. Kviknað hafði í annarri þeirra og fundu viðbragðsaðilar þyrlubrakið út frá reyknum sem steig upp af því.

Lögreglan hefur staðfest að fimm voru um borð í þyrlunum tveimur og hafa borið kennsl á báða flugmennina. Annar þeirra er Oleg Sõnajalg, þekktur eistneskur athafnamaður, sem var þekktur fyrir að fljúga gjarnan eigin þyrlum. Enn á eftir að bera kennsl á farþegana þrjá.

Þyrlurnar tvær áttu að taka þátt í viðburði við Piikajärvi-flugvöll á vegum flugklúbbs. Þar var von á um tuttugu flugvélum og um 50 þátttakendum. 

Flugmálayfirvöld í Finnlandi og Eistlandi vinna nú saman að rannsókn á slysinu. Tildrög þess eru enn óþekkt en talið er að mannleg mistök, veðurfar eða samskiptaleysi hafi valdið slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×