Skoðun

Að mása eða fara í golf

Jón Pétur Zimsen skrifar

„Ég get ekki annað en velt fyrir mér virðingu þeirra sem leika þennan leik gagnvart tíma fólks sem starfar á Alþingi.“

Svona másar Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sig hása í grein á Vísi fyrr í dag þar sem hún viðurkennir að hún sé enn að reyna að skilja hvernig lýðræðisleg umræða gengur fyrir sig á Alþingi. Og það er ekkert að því. Hún er nýr þingmaður – rétt eins og ég – og saman munum við ná tökum á þessu með tíð og tíma.

Yfirlæti ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er slíkt að stjórnarmeirihlutinn kemst ekki yfir það að lýðræðisleg umræða fari yfir höfuð fram um öll fallegu málin þeirra. Svo mjög að er farið loftköstum þegar tekist er á um risastór mál eins og veiðigjöldin og talað um Íslandsmet í málþófi. Þar gleymist þátttaka meirihlutans, sem tók afar virkan þátt í umræðunni þannig samhentur var þingheimur að bæta það met.

Á meðan ríkisstjórnin hefur velt fyrir sér öflugum málflutning minnihlutans – eitthvað sem þingmenn voru lýðræðislega kjörnir til að gera – höfum við bent á hversu litla virðingu ríkisstjórnin ber fyrir Alþingi. Svikin loforð, ítrekuð brot á hefðum og venjum, svo ekki sé minnst á mætingu meirihlutans til vinnu á laugardaginn var. Þingfund sem meirihlutinn boðaði til.

Ása másar sig hása er hún spyr hvernig þingmenn „sem kjósa að nýta tímann sinn með þessum hætti geti horft framan í fólkið í landinu sem greiðir okkur himinhá laun“.

Fólkið í landinu vill að mætt sé til vinnu og að þingmenn taki málin alvarlega. Hún ætti kannski að líta sér nær og spyrja einn þingmann í sínum flokki, hvers vegna hann tók golfmót fram yfir þingfund á laugardaginn var, þegar hið risastóra veiðigjaldamál var til umræðu.

Ég spyr mig hvernig þingmenn sem kjósa að nýta tímann sinn með þessum hætti geti horft framan í fólkið í landinu sem greiðir okkur himinhá laun?

Hvað finnst þér?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×