Innlent

Konungs­hjónin tóku á móti Höllu og Birni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Halla Tómasdóttir og Karl Gústaf Svíakonungur við konungshöllina.
Halla Tómasdóttir og Karl Gústaf Svíakonungur við konungshöllina. EPA

Konungshjón Svía, Karl Gústaf XVI. konungur og Silvía Svíadrottning, tóku fyrr í dag á móti forsetahjónum Íslands, Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og Birni Skúlasyni eiginmanni hennar við konungshöllina í Stokkhólmi.

Þá hófst formlega þriggja daga heimsókn Höllu til Svíþjóðar.

Samkvæmt vef forseta Íslands mun Halla eiga fund með með forseta löggjafarþingsins, Andreas Norlén, ásamt utanríkisráðherra og öðrum sendinefndarmönnum að móttökuathöfninni lokinni. Síðan mun Halla funda með Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía. Þau tvö munu svo ræða við fjölmiðla. Að því loknu mun Halla og fylgdarlið skoða varðbát í eigu sænsku Landhelgisgæslunnar, fræðast um starfsemi hennar og sigla um skerjagarðinn.

Forsetahjónin og konungshjóninEPA

Á sama tíma mun Björn Skúlason fara með Silvíu drottningu í heimsókn á Silviahemmet, sem er dagvistunarúrræði sem drottning stofnaði fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma, en eiginmaður forseta er verndari Alzheimer-samtakanna á Íslandi. Alma Möller heilbrigðisráðherra og Anna Tenje, ráðherra öldrunarmála í Svíþjóð, verða með í för. Drottningin mun einnig fylgja Birni og heilbrigðisráðherra í Barnahus, sem er barnaverndarúrræði að íslenskri fyrirmynd.

Dagskrá dagsins í dag mun ljúka með hátíðarkvöldverði.EPA

Fram kemur að dagskrá dagsins í dag muni ljúka með hátíðarkvöldverði í Konungshöllinni.

Þó að heimsóknin hafi formlega hafist í dag þá hittu forsetahjónin Viktoríu krónprinsessu og Daníel prins í gær. Þá gengu þau meðal annars um skúlptúrgarð Estellu prinsessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×