Handbolti

„Verður svaka­legur leikur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gunnar Magnússon gæti þjálfað sinn síðasta leik hjá Aftureldingu í kvöld. Hann tekur við Haukum eftir tímabilið.
Gunnar Magnússon gæti þjálfað sinn síðasta leik hjá Aftureldingu í kvöld. Hann tekur við Haukum eftir tímabilið. VÍSIR/VILHELM

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, er vongóður fyrir oddaleik liðs hans við Val í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Búast má við spennuleik.

„Auðvitað er ótrúlega gaman að taka þátt í svona stórum leikjum. Þetta hefur verið hörkueinvígi og fjórir hörkuleikir. Ég á ekki von á neinu öðru í kvöld en að þetta verði svakalegur leikur,“ segir Gunnar í samtali við íþróttadeild.

Afturelding vann síðasta leik í Mosfellsbæ og hafa allir þrír leikirnir í einvíginu unnist á heimavelli. Mikil spenna hefur verið í leikjunum, þá sérlega þeim að Hlíðarenda.

„Síðustu leikirnir í Valsheimilinu hafa ráðist á einu litlu atriði og mjög stutt á milli. Í fyrsta töpuðum við í framlengingu og svo síðast skoruðu þeir í rauninni á síðustu sekúndunum. Ég á von á því að þetta verði svipað, þetta verði smáatriði hér eða þar sem ráða úrslitum,“ segir Gunnar.

Nú sé komið að því að hans menn taki útisigur í einvíginu.

„Þetta er þriðja tilraunin okkar til að vinna þá í Valsheimilinu. Eigum við ekki að segja allt er þegar þrennt er, vonandi tekst þetta í kvöld. Við gerum allt til þess og ég veit að fólkið okkar úr Mosó ætlar að mæta og styðja okkur og hjálpa okkur að landa þessum sigri,“ segir Gunnar.

Leikur kvöldsins hefst klukkan 20:30 en þar á undan mætir kvennalið Vals liði ÍR. Vinni kvennaliðið fer það í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×