Upp­gjörið: Valur - Víkingur 1-1 | Jafn­tefli sann­gjarnt þegar hvorugt lið sækir til sigurs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Hlíðarenda, í Víkingstreyju, og tók stig með sér
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Hlíðarenda, í Víkingstreyju, og tók stig með sér vísir / diego

Valur og Víkingur gerðu 1-1 jafntefli sín á milli á Hlíðarenda, bæði mörk skoruð úr vítaspyrnum og liðin bæði hræddari við tap en þau voru hungruð í sigur. Víkingur ógnaði varla marki í seinni hálfleik en átti skalla í slánna í uppbótartíma. Jafntefli sanngjörn niðurstaða, Víkingur með sjö stig og Valur sex stig þegar fjórar umferðir hafa verið spilaðar.

Gylfi Þór Sigurðsson var að snúa aftur á Hlíðarenda, í búningi Víkings, eftir viðskilnað við Val fyrr í vetur. Hann fékk samt ekki að taka vítaspyrnuna sem Víkingur fékk um miðjan fyrri hálfleik.

Birkir Heimisson gerðist þá brotlegur á Stíg Diljan, sem var langsprækasti leikmaður vallarins í fyrri hálfleik. Helgi Guðjónsson steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Helgi tók forystuna fyrir Víking af vítapunktinum.vísir / diego

Valsmenn brunuðu í sókn eftir að hafa lent undir og komu Patrick Pedersen í fínt færi, en skotið hafnaði í hliðarnetinu.

Sölvi Geir leiðbeinir Tarik Ibrahimagic, sem leysti miðvarðarstöðuna vegna þess að Oliver Ekroth datt út í upphitun. vísir / Diego

Fátt markvert gerðist annars í fyrri hálfleik. Valsmenn virkuðu verulega pirraður á stöðunni þegar þeir gengu til búningsherbergja og mættu orkumeiri út í seinni hálfleik. Áfram gekk hins vegar illa að skapa færi.

Sigurður Hjörtur vísaði báðum liðum á vítapunktinn.vísir / diego

Mark Valsmanna kom upp úr aukaspyrnu sem liðið tók snöggt og kom Víkingsvörninni að óvörum. Jónatan Ingi fékk boltann og var keyrður niður í vítateignum af Gunnari Vatnhamar. Vítaspyrna dæmd, sem Patrick Pedersen skoraði úr.

Jónatan Ingi fiskaði vítaspyrnu Vals.vísir / diego
Patrick Pedersen steig á punktinn og skoraði sitt fjórða mark í jafnmörgum leikjum.vísir / diego

Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði, þó Valsmenn væru meira með boltann. Bæði lið virtust hrædd við að tapa leiknum og lögðu því alls ekki allt í sölurnar til að sækja sigur.

Víkingar höfðu varla sótt að marki Valsmanna en gerðu heiðarlega tilraun til að taka með sér öll stigin þrjú á þriðju mínútu uppbótartíma. Gylfi gaf boltann fyrir úr aukaspyrnu og Helgi Guðjónsson átti góðan skalla sem var varinn í slánna.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Atvik leiksins

Markvarsla Stefáns Þórs í uppbótartímanum bjargaði stigi fyrir Valsmenn. Flottur fleyttur skalli frá Helga en viðbrögðin betri hjá Stefáni.

Víkingar reyndu svo að fylgja eftir en Bjarni Mark hreinsaði boltann af línunni og bjargaði marki.

Stemning og umgjörð

Vel mætt á Hlíðarenda en áhorfendatölur bárust blaðamönnum ekki. Hálft annað þúsund er ágiskunin. 

Stemningin ágæt, sérstaklega Víkingsmegin, en fylgdi svolítið takti leiksins, sem var slakur. 

Valur - Víkingur Besta Deild Karla Vor 2025vísir / diego

Dómarar

Fengu að heyra hressilegt baul undir lok fyrri hálfleiks frá stuðningsmönnum Víkings. Misstu vissulega af broti þar, en full harkaleg viðbrögð úr stúkunni.

Að öðru leiti virkilega vel dæmdur leikur, harka leyfð en ekki í óhófi. Beðið með spjöldin þar til þörf var á þeim, sem gerðist undir lokin þegar bæði lið fóru að brjóta skyndisóknir.

Viðtöl

„Það er ekki einu sinni kominn maí sko“

Gylfi Þór segist ekki hafa upplifað öðruvísi tilfinningar en vanalega í leiknum gegn sínum gömlu félögum.vísir / diego

„Sloppy hjá okkur að leyfa þeim að spila hratt úr aukaspyrnunni, en mér skilst að Gunnar hafi látið boltann til dómarans, sem sagði að hann þyrfti að bíða. Síðan spila þeir bara hratt, en kannski okkur sjálfum að kenna að láta dómarann fá boltann“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson um atvikið sem leiddi til vítaspyrnudómsins og marks Valsmanna.

Gylfi var að spila gegn sínum gömlu félögum í kvöld en upplifði ekki öðruvísi tilfinningar inni á vellinum, en örlítið fyrir leik.

„Nei svosem ekki. Kannski aðeins fyrir leikinn bara, að koma aftur hingað og spila á móti gömlum liðsfélögum, en þegar þú ert inni í leiknum þá ertu ekkert að spá í því“ sagði Gylfi sem heyrði ekkert baul úr stúkunni frá stuðningsmönnum Vals.

Víkingur skapaði sér fá færi í seinni hálfleik, líkt og Valur.

„Nei kannski ekki nema í lokin þegar Stefán ver í slánna og Bjarni bjargar á línu… Fyrir utan það þá náðum við kannski ekkert að skapa nein svakalega færi en hvort að Valsararnir gerðu það, man ég bara ekki alveg. Ég held að það hafi ekki verið neitt rosalega mikið um færi í seinni hálfleik.“

Þetta var þriðji leikur Víkings í röð án sigurs, sem er ekki áhyggjuefni að mati Gylfa.

„Nei það er ekki einu sinni kominn maí sko, nóg eftir af mótinu“ sagði Gylfi að lokum.

„Verðskuldað að jafna og vantaði herslumuninn“

Srdjan Tufegdzic (Túfa) reiknar ekki með breytingum á leikmannahópnum áður en félagaskiptaglugginn lokar. Vísir/Ívar

„Erfiður leikur. Hörkuleikur tveggja hálfleika. Spennustigið okkar var allt of lágt fyrsta hálftímann, vorum ekki að spila illa en vantaði þennan kraft sem kom í seinni hálfleik. Kraftur sem við erum búnir að vinna mikið fyrir í vetur og getum notað miklu meira. Þetta mark kemur úr því að þeir eru aðeins grimmari, aðeins ákveðnari… En mér fannst við skipta í næsta gír í seinni hálfleik og þá var bara eitt lið á vellinum. Verðskuldað að jafna og vantaði herslumuninn til að skora annað mark en við vorum við völd á vellinum. Á endanum kannski sanngjörn niðurstaða“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, fljótlega eftir leik.

„Víkingar eru þekktir fyrir að gefast aldrei upp… en okkar markmenn og varnarmenn skiluðu sínu, björguðu þessu dauðafæri sem þeir fengu“ sagði Túfa um lokamínútur leiksins, þegar Víkingur var næstum því búið að stela sigrinum.

Túfa greindi síðan frá því að Frederik Schram myndi koma til liðsins í næstu viku en hann gekk frá félagaskiptum til Vals á dögunum. Vegna meiðsla sem Ögmundur Kristinsson hefur ekki jafnað sig af. Ögmundur er samt ekki á förum frá félaginu. Þá sagði hann Stefán hafa staðið sig vel í markinu, í kvöld og öllum öðrum leikjum sem hann hefur spilað.

Ekki er von á því að Valsliðið sæki leikmann áður en félagaskiptaglugginn lokar á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira