Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 er fjallað um íslensku flugnýlenduna sem tók að myndast í Lúxemborg um miðjan sjötta áratuginn eftir að Findel-flugvöllur varð miðstöð Loftleiða á meginlandi Evrópu vegna Ameríkuflugsins.

„Þeir eru að taka þotur í notkun 1970. Og Monsarnir eru hægt og rólega teknir úr notkun. Þá var það spurningin: Hvað á að gera við þá?“ segir Einar Ólafsson, fyrsti forstjóri Cargolux, en hann er meðal viðmælenda þáttanna.
Alfreð Elíasson, forstjóri Loftleiða, hafði árið 1969 falið einum framkvæmdastjóra sinna, Jóhannesi Einarssyni, sem annaðist flotamál Loftleiða, að finna flugvélunum nýtt hlutverk.

Á sama tíma var samgönguráðherra Lúxemborgar að leita leiða til að efla Findel-flugvöll. Sænskur skipakóngur, Christer Salen, hafði um líkt leyti viðrað hugmynd við Loftleiðamenn um fraktflugfélag en CL44-vélarnar höfðu upphaflega verið smíðaðar til vöruflutninga og voru opnanlegar að aftan.
Jóhannes Einarsson lagði til að efnt yrði til þríhliða viðræðna. Þær leiddu til stofnunar Cargolux þann 4. mars árið 1970. Flugrekstrarleyfi fékkst 10. maí árið 1970 og fyrsta flugið undir merki Cargolux var farið daginn eftir. Kassarnir þrír í merki Cargolux tákna þessar þrjár upphaflegu stoðir félagsins.

Fyrstu flugvélina, gömlu Loftleiðavélina TF-LLJ, leigði Cargolux en félagið tók síðar yfir allar CL 44-vélar Loftleiða. Flugrekstrarskírteinið fékk Cargolux 10. maí árið 1970 og var fyrsta flugið undir merki Cargolux var farið daginn eftir.
Samningurinn um fimmtu flugvél Cargolux varð sögulegur því hún hafði skömmu áður brotlent á Kennedyflugvelli í New York í síðasta farþegafluginu fyrir Loftleiðir. Skiptar skoðanir voru innan Loftleiða um hvort ætti að rífa flugvélina en Jóhannes fékk því framgengt að hún yrði gerð upp. Hann samdi svo um flugvélina við Christer Salen á næturklúbbi í Lúxemborg og var samningurinn skrifaður á borðdúk í veitingasalnum.

„Ég vil segja að Jóhannes Einarsson er faðir Cargolux. Það er honum að þakka allt þetta sem er búið að gera enn þann dag í dag,“ segir Agnar Sigurvinsson, sem flutti ásamt fjölskyldu til Lúxemborgar árið 1966 til að vinna sem flugvirki hjá Loftleiðum. Agnar starfaði síðar sem flugvélstjóri á Boeing 747-þotum Cargolux.
Hér má sjá tíu mínútna myndskeið úr þættinum:
Þetta var fyrri þáttur af tveimur um íslensku flugnýlenduna í Lúxemborg. Seinni þátturinn verður sýndur á Stöð 2 næstkomandi þriðjudagskvöld.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er.
Hér er kynningarstikla þáttanna:
Ítarlegt viðtal var við Jóhannes Einarsson á Stöð 2 árið 2017, sem sjá má hér: