„Við náðum strax mjög vel saman við Airbus. Fengum mikla athygli frá þeim. Þeir horfðu á Ísland. Þarna var Icelandair með Boeing,“ segir Skúli í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2.
Wow Air fór í loftið árið 2012, sama ár og ráðamenn Icelandair völdu Boeing MAX. Airbus-menn voru í sárum eftir misheppnaða tilraun til að koma Íslandi inn á landakort sitt.
„Já, þá langaði mikið til að komast inn á íslenska markaðinn. Þarna var Icelandair búið að vera í hálfgerðri einokunarstöðu með Boeing. Það munaði mjög litlu að Icelandair hefði valið Airbus,“ segir Skúli.
Þotukaupin réðust að morgni eftir næturfund, sagði Vísir. Fram á síðustu stundu leit út fyrir að Icelandair-menn myndu velja Airbus.
„Já, voru mjög nálægt því. Sjá örugglega eftir því í dag. Það hefði verið hárrétt ákvörðun á þeim tíma.
Þannig að við fengum mjög góða þjónustu, alveg frá fyrsta degi, á hæsta stigi,“ segir Skúli, en í þættinum segir hann frá því þegar Airbus kvittaði upp á það að nýstofnað sprotafyrirtækið Wow Air fengi lánsfjármögnun til að kaupa fjórar Airbus-flugvélar á betri eða jafngóðum lánakjörum og íslenska ríkið naut.

Rekstur Play reis á grunni þeirrar reynslu sem byggst hafði upp innan Wow í rekstri Airbus A320-flugvéla. Það var því rökrétt hjá Play að velja þá tegund.
„Þetta er alveg klárlega vélin sem hentar best í það sem við erum að gera,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
„Mér heyrist nú fleiri vera að komast á þá skoðun að þetta sé rétta vélin. Við náðum að velja þetta strax. Aðrir finna út úr þessu síðar,“ segir Einar Örn.
Hér má sjá tíu mínútna kafla úr þættinum:
Fjallað er um Airbus-þotur í rekstri íslensku flugfélaganna í þessum níunda þætti Flugþjóðarinnar á Stöð 2. Þátturinn verður endursýndur á Stöð í dag, sunnudag, klukkan 17:45. Hér má sjá upphafsmínútur þáttarins:
Í næsta þætti Flugþjóðarinnar, sem er á dagskrá Stöðvar 2 á þriðjudagskvöld 8. apríl, verður fjallað um íslensku flugnýlenduna í Lúxemborg allt frá því Loftleiðir komu sér þar upp starfsstöð vegna Ameríkuflugsins.