Upp­gjörið: Valur - Haukar 29-23 | Deildar­meistara­titillinn í aug­sýn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ásdís Þóra Ágústsdóttir skoraði sjö fyrir Val.
Ásdís Þóra Ágústsdóttir skoraði sjö fyrir Val. Vísir/Daníel Þór

Valur vann öruggan sex marka sigur er liðið tók á móti Haukum í toppslag Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld, 29-23. Með sigrinum tók Valur stórt skref í átt að deildarmeistaratitlinum.

Valskonur tóku forystuna strax í fyrstu sókn og byggðu ofan á forskotið jafnt og þétt. Sóknarleikur Hauka var þunglamalegur og gestirnir þurftu að hafa mikið fyrir hverju einasta marki á meðan Valsliðið náði oft og tíðum að galopna vörn Hauka.

Haukar töpuðu boltanum of oft í fyrri hálfleik og fengu þar að auki litla sem enga markvörslu fyrir aftan ósannfærandi varnarlínuna og Valskonur fóru því með öruggt sex marka forskot inn í hálfleikhléið, staðan 15-9.

Síðari hálfleikur bauð svo upp á meira af því sama. Valsliðið hélt öruggu forskoti og náði mest níu marka forystu í seinni hálfleik.

Haukar náðu smá auhlaupi undir lok leiks og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, en sigur Vals var þó aldrei í hættu og heimakonur unnu að lokum öruggan sex marka sigur, 29-23.

Valur trónir því enn á toppi Olís-deildar kvenna, nú með 34 stig þegar liðið á aðeins tvo leiki eftir. Haukar sitja hins vegar enn í þriðja sæti með 28 stig.

Atvik leiksins

Í raun er ekkert eitt atvik sem stendur upp úr leik kvöldsins, en innkoma Söru Odden í sóknarleik Hauka í seinni hálfleik er þó eitthvað sem flestir tóku eftir. Sara var ekkert að tvínóna við hlutina og fór trekk í trekk upp í fyrsta skrefi og lét vaða á markið. Hún endaði með sex mörk og sýndi klárlega hvers hún er megnug.

Stjörnur og skúrkar

Þær Thea Imani Sturludóttir og Ásdís Þóra Ágústsdóttir drógu vagninn fyrir Valsliðið og skoruðu sjö mörk hvor. Þá var Elín Rósa Magnúsdóttir einnig öflug og skapaði heil ellefu færi fyrir liðsfélaga sína og endaði með átta stoðsendingar.

Í liði Hauka var Elín Klara Þorkelsdóttir með sín akademísku átta mörk. Hún hefur vissulega oft spilað betur, en það virðist vera sama hvað gengur á, hún skilar alltaf sínu.

Elín Klara Þorkelsdóttir er á kveðjutímabili sínu með Haukum áður en hún heldur í atvinnumennsku til Svíþjóðar.vísir/Hulda Margrét

Dómararnir

Þeir ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson skiluðu fínasta dagsverki í leik kvöldsins. Í raun var lítið um vafaatriði sem þeir þurftu að taka á, en pössuðu sig að hleypa háværum einstaklingum á bekkjum liðanna ekki á of mikið flug.

Stemning og umgjörð

Það var fámennt á pöllunum í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Toppslagur í Olís-deildinni og þá gerir maður þá kröfu að fleiri láti sjá sig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira