Skoðun

Börn með fjöl­þættan vanda

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Síðastliðinn föstudag, 7. mars var haldinn fundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og þingmanna höfuðborgarsvæðisins ásamt kjörnum fulltrúum sveitarstjórna. Til umræðu var m.a. staða barna með fjölþættan vanda. Við vorum nokkrir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem kvöddum okkur hljóðs og lýstum yfir stuðningi okkar við málaflokkinn og ánægju með aðkomu ríkisvaldsins að honum.

Enda þótt ekki sé um stóran hóp barna að ræða sem glímir við fjölþættan vanda, þarfnast hann víðtækra úrræða bæði til lengri og skemmri tíma. Það hefur reynst sveitarfélögum erfitt að þjóna þessum hópi svo vel sé. Mörg barnanna þarfnast þriðja stigs þjónustu. Á þriðja stigi er veittur sérhæfðari stuðningur til að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin.

Barn með fjölþættan vanda kann að hafa þörf fyrir viðamikið úrræði s.s. vistun utan heimilis tímabundið og því flókið fyrir sveitarfélög að setja á fót úrræði fyrir svo umfangsmikla þjónustu tímabundið og hvað þá að halda úti slíku úrræði í lengri tíma. Það er ákveðinn hluti foreldra sem getur ekki verið með börn sín heima sem glíma við svo flókinn vanda þrátt fyrir ríkan vilja.

Vísað er í tiltölulega nýlega í skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Í henni eru að finna tillögur um úrræðin, fyrirkomulag þjónustunnar og tillögur um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í dag er til talsvert af skammtímaúrræðum sem börn með fjölþættan vanda hafa farið í gegnum en þar sem vandinn er viðvarandi er kannski viðbúið að slík skammtímaúrræði skili ekki tilætluðum árangri.

Því ber að fagna að ríkisstjórnin undirbúi nú breytingar og aðgerðir í þessum málum. Þegar ábyrgð og framkvæmd þjónustunnar verður kominn á einn aðila aukast möguleikarnir á að ná fram skynsamlegri nýtingu á störfum sérfræðinga og fjármuna fyrir svo viðkvæman hóp barna.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×