Innlent

„Stein­hissa“ þegar honum var birt á­kæra

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Kristján Sívarsson mætti í dómsal klæddur í Adidas peysu og í fylgd fangavarða enda sætir hann gæsluvarðhaldi.
Kristján Sívarsson mætti í dómsal klæddur í Adidas peysu og í fylgd fangavarða enda sætir hann gæsluvarðhaldi. Vísir/AntonBrink

„Ég er ekki að skilja hvernig ég á að geta misþyrmt manneskju dögum saman, án þess að lögreglan komi. Ég er þekktur og er undir eftirliti,“ sagði Kristján Markús Sívarsson við aðalmeðferð sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. Kristján er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa um nokkurra daga skeið beitt konu miklu ofbeldi á heimili hans í nóvember síðastliðnum.

Segja má að Kristján sé fastagestur í dómsal en hann hefur sjö sinnum hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot, síðast í nóvember þegar hann var sakfelldur fyrir að ráðast á konu með kertastjaka en hún hlaut höfuðkúpubrot og mar á heila. Árið 2015 hlaut hann fjögurra ára og níu mánaða fangelsisdóm vegna tveggja frelsissviptinga.

Rétt er að vara lesendur við lýsingar á því ofbeldi sem rætt er í þessari frétt.

Brotaþolinn breytti framburðinum

Í ákæru á hendur Kristjáni Markúsi segir að ofbeldið hafi staðið yfir frá byrjun nóvember og til þess 10. þess mánaðar. Um það leyti hlaut hann sextán mánaða dóm fyrir ofbeldi gegn annarri konu.

Í málinu sem nú er til meðferðar hjá dómstólum er honum gefið að sök að hafa slegið konu víðsvegar í líkama og höfuð, meðal annars með hleðslusnúru, hamri, járnröri og tréspýtu. Þá er hann sagður hafa slegið hana í andlitið með kveikjara og lagt logandi sígarettur að hálsi hennar.

Jafnframt er hann ákærður fyrir að taka höndum um háls konunnar og þrengja að, stinga hana í líkamann með sprautunálum og skera fótleggi hennar með hníf. Þar að auki er hann sagður hafa stigið og traðkað á báðum fótleggjum hennar, og sparkað víðs vegar í líkama hennar, og hrækja framan í hana, og líka skvetta vatni á hana.

Samkvæmt ákæru hlaut konan fyrir vikið mikla áverka víða um líkamann. Kristján sagði í skýrslutöku hjá lögreglu hafa þekkt konuna í um mánuð, hún ætti það til að fá gistingu hjá henni en hafnaði öllum ásökunum um ofbeldi. Hann hefði raunar tekið eftir áverkum á henni og aðstoðað hana við að búa um þá.

Breytti framburði sínum

Athygli vakti að konan breytti framburði sínum rétt fyrir jól og sagðist sjálf hafa átt upptök að átökum þeirra á milli. Kristján hefði ekki veitt henni alla áverkana.

Henni þætti ósanngjarnt að Kristján sæti í gæsluvarðhaldi fyrir eitthvað sem hann hefði ekki gert. Hún sagði samband þeirra Kristjáns gott og neitaði að hafa verið beitt þrýstingi til að breyta frásögn sinni.

Fyrir dómi sakaði Kristján lögregluna um að hafa gengið út frá sekt hans „frá degi eitt.”Vísir/Anton Brink

Hún myndi eingöngu eftir að hafa vaknað hjá honum með áverka án þess að geta nefnt þá sem voru á staðnum og hver hefði veitt henni áverkana. Þau Kristján hefðu rifist en hún hefði átt upptökin. Þau hefðu slegist þar sem hún hefði kýlt Kristján en hann sparkað í hana.

Landsréttur tók breyttum framburði konunnar með fyrirvara og taldi ekki ástæðu til að rengja fyrri framburð konunnar sem hefði samrýmst rannsóknargögnum málsins. Var gæsluvarðhald yfir honum staðfest. 

Sagði tal um sjálfsvíg hafa „hitt á taug“

Kristján mætti í fylgd fangavarða í dómsal þegar aðalmeðferð fór fram í gærmorgun en hann sætir gæsluvarðhaldi. 

Við skýrslutöku fyrir dómnum sagðist Kristján hafa þekkt konuna í þrjár eða fjórar vikur áður en hann var handtekinn, og sagði vin sinn hafa kynnt sig fyrir henni. Þau voru að hans sögn „neysluvinir“ en ekki par. Sagðist hann hafa veitt konunni húsaskjól nokkrum sinnum þar sem að hún hafi verið á vergangi. Konan hafi verið í neyslu og verið „virkilega týnd“.

Sagðist hann telja að konan hefði gist hjá honum þrisvar sinnum á umræddu tíu daga tímabili. Hina dagana hefði hún verið að koma og fara. Í eitt skipti hefði hann komið að henni sofandi í þvottahúsinu á hæðinni fyrir neðan. Að sögn Kristjáns fékk konan einnig að gista nokkrum sinnum í íbúðinni á neðri hæðinni, hjá manni sem þar bjó.

Aðalmeðferðin fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.Vísir/Aron Brink

Þá sagði Kristján samskipti hans og konunnar „að mestu góð“ á meðan konan dvaldi á heimili hans í Hafnarfirði, en svo hafi farið að koma upp rifrildi. Það hefði farið að sjóða upp úr þegar konan byrjaði að tala um sjálfsvíg. Kristján sagði það hafa „hitt á taug“ hjá sér, þar sem að barnsmóðir hefði látist úr ofneyslu á sínum tíma. Kvaðst hann hafa í kjölfarið hent konunni út og þá hefði komið til átaka þar sem að konan neitaði að yfirgefa íbúðina. Að sögn Kristjáns átti þetta sér stað þann 10. nóvember en hann sagði „engin læti eða leiðindi“ hafa átt sér stað á milli þeirra dagana á undan. Þau hefðu bara verið á fylleríi.

Að sögn Kristjáns var konan orðin byrði á honum, en hann hafi þó fundið til með henni. Hann hefði reynt að koma henni inn á Konukot en hún hefði ekki viljað fara þangað.

Sagði lögregluna ekki vinveitta sér

Kristján kvaðst hafa haft vitneskju um það að konan hefði margsinnis áður orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu annarra manna. Konan hefði verið með áverka allan tímann sem hann þekkti hana. Það hefði hins ekki verið fyrr en kvöldið áður, þann 9. nóvember, að hann kom auga á það hversu alvarlegir þeir áverkar voru.

Þegar hann var spurður um hvort hann hefði spurt konuna hver hefði veitt henni áverkana svaraði hann:

„Ég held að hún hafi ekki viljað segja mér það, eða þá ekki munað það sjálf.“

Sagði hann konuna hafa tjáð sér að henni hefði verið nauðgað fjórum sinnum, og að hún væri að íhuga að kæra eina af þeim nauðgunum.Kristján kvaðst hafa hvatt konuna til að fara á spítala, og leggja fram kæru.

Aðspurður um hvers vegna hann hefði ekki haft samband við lögregluna sagði Kristján að lögreglan væri ekki vinveitt sér.

„Þeir koma ekki og hjálpa mér eins og öðru fólki.“

Hann hafi síðan orðið „steinhissa“ þegar honum var sjálfum birt ákæra fyrir líkamsárás á konuna.

Lífsýni á tréspýtu

Kristján neitaði alfarið að hafa veitt konunni áverka með því að hafa slegið hana víðsvegar í líkama og höfuð, meðal annars með hleðslusnúru, hamri, járnröri og tréspýtu.

„Ég ber ekki ábyrgð á þessum áverkum sem hún er með.“

Aðspurður um blóð úr konunni sem fannst í íbúð hans svaraði Kristján að konan hefði farið í sturtu og þá hefði opnast sár sem hún var með.

Þegar hann var spurður út í lífsýni úr konunni sem fannst á tréspýtu sagði Kristján að umrædd tréspýta hefði verið negld við hillu; konan hefði gripið utan um spýtuna þegar hún var að labba fram hjá með þeim afleiðingum að það blæddi úr henni.

Sagði nágranna sinn ljúga

Aðspurður um klórför sem hann var með á hálsinum þegar handtaka og skýrslutaka fóru fram hjá lögreglu svaraði Kristján: „Ég get eiginlega ekki skýrt það, það er svo mikið sem gæti hafa gerst. Ég henti henni út, þetta gæti hafa komið þá.“

Borinn var undir Kristján vitnisburður nágranna sem búsettur er skammt frá heimili hans. Sá kvaðst í þrígang hafa séð séð karlmann hrækja í andlit konu og slá hana en bar þó ekki formlega kennsl á að umrætt par væri Kristján og konan. Hélt Kristján því fram að umræddur nágranni væri að ljúga; honum væri illa við sig þar sem hann væri í neyslu.

Þá var borinn undir hann vitnisburður tveggja nágranna hans, sem búsettir eru í sama húsi. Þeir sögðu mikil læti hafa borist frá íbúðinni og að heyrst hefði í rifrildi pars. Svaraði Kristján því að það hefði alveg komið fyrir að hann og konan rifust „eins og gerist hjá fólki á fylleríi.” Kannaðist hann við að nágrannarnir hefðu kvartað undan látum, en þau læti hefðu þó ekki komið til út af slagsmálum.

Neitaði að hafa haft áhrif á framburð

Kristján var spurður um hvers vegna hann héldi að konan hefði borið á hann umræddar sakir í nóvember síðastliðnum. Sagðist hann halda að konan hefði verið reið út í hann fyrir að hafa hent henni út, eða þá að hún hefði ekki gert sér grein fyrir hvað hún var að segja.

Þá sakaði Kristján lögregluna um að hafa gengið út frá sekt hans „frá degi eitt” og aldrei tekið annað í mál en að hann væri sekur.

Á öðrum stað sagðist Kristján ekki fatta beinlínis hvað væri verið að ákæra hann fyrir.

Aðspurður sagðist hann hafa verið í samskiptum við konuna eftir að hann fór í gæsluvarðhald, alveg þar til konan týndi símanum sínum. Þá neitaði hann því að hafa reynt að hafa áhrif á framburð hennar eða þrýst á hana að draga ásakanirnar til baka. Sagðist hann hafa hvatt konuna til að „segja sannleikann.“

Þá bætti hann því við að honum fyndist þetta „rosalega leiðinlegt mál allt saman” og bætti við að hann bæri þó engan kala til konunnar, heldur óskaði hann henni alls þess besta í lífinu.

Fátt um svör

Konan mætti einnig í skýrslutöku fyrir héraðsdómi í morgun. Konan var treg til að tjá sig um málsatvik og sagðist hafa „voðalega fátt að segja.“

Þegar konan var spurð út í lýsingarnar í ákærunni sem snúa að margvíslegu ofbeldi, og hvort þær væru allar rangar þá svaraði hún játandi.

Kvaðst hún hafa kynnst Kristjáni í lok september, í gegnum sameiginlegan kunningja. Hún hefði búið hjá honum í tvo til þrjá mánuði. Þau Kristján hefðu stundum rifist en annars hefði sambúð þeirra verið „bara góð“. Á öðrum stað sagði hún þó að sambúðin hefði gengið „upp og niður“.

Bornar voru undir konuna lýsingar hennar úr skýrslutöku hjá lögreglu, en alls var um þrjár skýrslutökur að ræða.

Þegar hún var spurð hvort að Kristján hefði einhvern tímann beitt hana ofbeldi á meðan hún dvaldi á heimili hans svaraði hún því neitandi. Aðspurð um hvort einhver annar hefði beitt hana ofbeldi á umræddu tíu daga tímabili svaraði hún því játandi en vildi þó ekki nefna nein nöfn.

Kannaðist við sumt en annað ekki

Konan var spurð út í mikla líkamlega áverka sem hún var með þegar hún mætti á slysadeildina umræddan dag í nóvember síðastliðnum. Þegar hún var spurð eftir hvað þeir áverkar voru sagðist hún ekki muna það – og ekki heldur eftir hvern þeir voru.

Þá sagði hún að smávægileg átök hefðu átt sér stað þann 10. nóvember síðastliðinn, þegar Kristján reyndi að henda henni út úr íbúðinni.

Konan var spurð út í framburð sinn við skýrslutöku hjá lögreglu, þar sem hún hélt því fram að Kristján hefði notast við ýmiskonar áhöld; hleðslutæki, hnefa, tréspýtu, rör og hníf. Hún sagðist kannast við að hafa séð umræddan hníf, sem gerður var upptækur á heimili Kristjáns. Þá sagðist hún hafa verið slegin með tréspýtu en sagðist ekki vera viss um hvort Kristján hefði gert það eða einhver annar. Þá hefði Kristján einhvern tímann stungið hana með nálum, en það hafi ekki verið í illu. Það væri hins vegar ekki rétt að hann hefði haldið sígarettu upp að hálsi hennar.

Þegar konan var spurð út í fyrri vitnisburð, um að Kristján hefði kýlt hana ítrekað, sparkað í hana og traðkað á henni minntist hún þess að þau hefðu „eitthvað verið að slást,” – og að þá hefði hún líka slegið til hans. Þá neitaði hún því að Kristján hefði hrækt á hana en minntist þess að hann hefði skvett hana í vatni „einhvern tímann í október eða nóvember.“

Sagðist ekki óttast Kristján

Fram kom að lögreglan hefði haldlagt muni á heimili Kristjáns, tréspýtu og málmrör sem reyndust innihalda lífsýni úr bæði Kristjáni og konunni, nánar tiltekið blóð úr konunni.

Konan sagðist muna eftir því að hafa blætt heima hjá Kristjáni en gat þó ekki sagt til um hvenær það hafi verið, eða hvers vegna.

Þá var hún spurð út í atriði ákærunnar, þar sem Kristjáni er gefið að sök að hafa tekið utan um háls hennar og þrengt að. Sagði hún það hafa átt sér stað við fyrrnefnd átök, þegar Kristján reyndi að henda henni út úr íbúðinni. Hún hafi verið æst og hann hafi reynt að stoppa hana af eða róa hana með því að taka hana hálstaki, en hafi þó aldrei tekið utan um háls hennar með lófunum.

Þegar konan var spurð út í fyrri ásökun, um að Kristján hefði komið í veg fyrir að hún færi út úr íbúðinni, neitaði hún því, og svaraði því síðan játandi þegar hún var spurð hvort hún hefði verið frjáls ferða sinna.

Þá var borinn undir konuna fyrrnefndur vitnisburður nágranna sem búsettur er skammt frá heimili Kristjáns. Aðspurð sagðist konan ekki kannast við að þetta hefði gerst.

Þegar konan var spurð að því hvers vegna hún hefði sagt á sínum tíma í skýrslutöku hjá lögreglu að Kristján væri valdur að áverkunum sagðist hún ekki vita það. Hún bætti við að hún „myndi ekki einu sinni eftir því“ að hafa farið á bráðamóttökuna. Hún sagðist jafnframt „muna voðalega lítið“ eftir skýrslutökunum.

Aðspurð sagðist hún hafa verið í samskiptum við Kristján eftir að hann var settur í gæsluvarðhald. Þá svaraði hún því neitandi þegar hún var spurð að því hvort hún óttaðist hann. Sagðist hún vera við ágæta heilsu í dag, og væri búin að jafna sig á áverkunum.

Fjallað verður um framburð lykilvitnis, lögreglumanna og heilbrigðisstarfsfólks sem kom fyrir dóminn á Vísi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×