Blaðamaður Variety ræddi við 84 meðlimi Akademíunnar, en þess má geta að þeir eru hátt í tíu þúsund, til þess spá í spilin.
Í grein sinni segir blaðamaðurinn frá því að tveir þessara meðlima hafi sagst hafa ákveðið að kjósa ekki Ralph Fiennes, sem er tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í Conclave. Ástæðan sem þessir tveir gáfu var sú að Fiennes hafi unnið verðlaunin áður, árið 1994 fyrir leik sinn í Schindler’s List. Þess í stað ákváðu þeir að kjósa Adrien Brody, fyrir The Brutalist.

Sannleikurinn er hins vegar sá að Ralph Fiennes hefur aldrei unnið Óskarsverðlaun. Hann var vissulega tilnefndur fyrir besta leik í aukahlutverki árið 1994 fyrir frammistöðuna í Schindler’s List, en þá bar Tommy Lee Jones sigur úr býtum fyrir The Fugitive.
Og ekki nóg með það, heldur hefur Adrien Brody unnið Óskarsverðlaun. Það var árið 2003 fyrir leik í kvikmyndinni The Pianist.

Brody hefur þótt líklegastur til að vinna verðlaunin þetta árið. Timothee Chalamet, sem leikur ungan Bob Dylan í A Complete Unknown, hefur þótt næst líklegastur. Áðurnefndur blaðamaður Variety er þó á þeirri skoðun að ef einhverjum takist að skáka Brody verði það Fiennes.