Skoðun

Opið bréf til Nannýjar Örnu Guð­munds­dóttir full­trúa í stjórn Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga

Jóhanna Ása Einarsdóttir, Gerður Einarsdóttir, Helga Björk Jóhannsdóttir, Margrét Skúladóttir og Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir skrifa

Kæra Nanný Arna!

Við, undirrituð, forsvarsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands á Vestfjörðum, skorum á þig sem fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að greina frá þinni afstöðu til innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Í ljósi þeirrar grafalvarlegu stöðu sem er uppi í kjaradeilunni teljum við brýnt að afstaða fulltrúa sveitarfélaganna í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé algerlega ljós. Ummæli nýkjörins borgarstjóra, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, um að hún hafi stutt þá innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram 20. febrúar, sýna að skýr svör eru nauðsynleg. Því krefjumst við þess að aðrir fulltrúar í stjórn Sambandsins greini frá sinni afstöðu.

Jafnframt viljum við lýsa yfir vonbrigðum okkar með það hversu langan tíma það hefur tekið að semja við kennarastéttina sem allir eru sammála um að er mjög mikilvæg þjóðfélaginu. Laun og starfsaðstæður eru löngu farnar að valda því að erfitt er að fá uppeldis- og kennaramenntað fólk til starfa í skólum landsins og skólar á Vestfjörðum hafa svo sannarlega staðið frammi fyrir mönnunarvanda undanfarin ár.

Spurningar okkar til þín eru þrjár:

Hvort sagðir þú já eða nei við innanhússtillögu ríkissáttasemjara þann 20. febrúar síðastliðinn?

Hvert er raunverulegt virði kennara- og skólastjórnunarstarfsins að þínu mati?

Hvað sérð þú fyrir þér að muni gerast varðandi skólastarf í landinu ef ekki verður samið við Kennarasamband Íslands fljótlega?

Virðingarfyllst,

Jóhanna Ása Einarsdóttir formaður KSV.

Gerður Einarsdóttir fulltrúi 4. deildar FL, Vestfjarðadeild.

Helga Björk Jóhannsdóttir fulltrúi í samráðsdeild FL á Vestfjörðum.

Margrét Skúladóttir formaður FF í Menntaskólanum á Ísafirði.

Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir formaður Vesturlands- og Vestfjarðadeildar FT.




Skoðun

Sjá meira


×