Þetta sagði Vance í viðtali við Wall Street Journal en ummæli hans marka nokkuð breyttan tón, séu þau borin saman við ummæli Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, á dögunum.
Viðtalið var tekið skömmu eftir að Donald Trump, forseti, lýsti því yfir að hann hefði rætt við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og að friðarviðræður ættu að hefjast á næstunni. Vance sagðist telja að þar myndu nást samningar sem kæmu mörgum á óvart.
Vance mun í dag funda með Vólódímír Selenskí, á hliðarlínu öryggisráðstefnu í München í Þýskalandi, þar sem hann mun einnig ávarpa aðra leiðtoga í dag.
Í ræðu sinni ætlar Vance að skammast út í ráðamenn í Evrópu, fyrir það að neita að vinna með popúlískum flokkum heimsálfunnar. Þeir þurfi að hætta að taka við farandfólki og láta af framsæknum stefnumálum sínum.
Vance segist ætla að kalla eftir „hefðbundnum gildum“ og því að endir yrði bundinn á „glæpi“ farandfólks.
„Þetta snýst um ritskoðun og fólksflutninga, um þann ótta sem ég og Trump deilum um að leiðtogar Evrópu óttist eigið fólk.“
Hann sagðist meðal annars ætla að kalla eftir því að leiðtogar stjórnmálaflokkum Þýskalands létu af banni þeirra gegn því að vinna með öfgahægriflokknum Valkostur fyrir Þýskaland (AfD).
Sjá einnig: Bandaríkin og öfgahægrið efst á baugi hjá þýsku kanslaraefnunum
Þá sagði Vance að lýðræði Evrópu stafaði meiri ógn af farandfólki en af áróðri frá Moskvu og stjórnmálaflokkum sem studdir eru af Kreml. Sú ógn hefði verið ofmetin.
Varaforsetinn ætlar einnig að lýsa yfir stuðningi við Elon Musk, sem hefur verið gagnrýndur af ráðamönnum í Evrópu fyrir afskipti af stjórnmálum í heimsálfunni og þá sérstaklega vegna stuðnings hans við AfD. Hann mun segjast sammála Musk um að draga þurfi úr flæði farandfólks til Evrópu og að væri rangt af leiðtogum heimsálfunnar að gagnrýna Musk fyrir ummæli hans.