Skoðun

Fangelsi Fram­sóknar­flokksins

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Þótt Framsóknarflokkurinn sé í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hefur hann í því samstarfi skapað sitt eigið fangelsi. Þetta kemur hvergi betur fram en í flugvallarmálinu.

Leikþátturinn í ágúst 2023

Í ágúst 2023 setti þáverandi borgarstjóri Samfylkingarinnar upp leikþátt um þær kröfur Isavia innanlandsflugvalla að tré yrðu grisjuð í Öskjuhlíð til að tryggja flugöryggi. Þótt þær kröfur styddust við gildandi samninga Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins var látið að því liggja af hálfu þáverandi borgarstjóra að málið snerist um stórfellt skógarhögg. Framsóknarflokkurinn, sem segist hliðhollur veru flugvallarins í Vatnsmýri, studdi að setja málið í umsagnarferli innan borgarkerfisins.

Svæfingardeildin og skortur á forystu

Síðan þá, eða í 18 mánuði, hefur málið verið í svæfingardeildinni hjá umhverfis- og skipulagsráði. Engar umsagnir hafa verið lagðar fram. Engin skýrslugerð liggur fyrir en af hálfu borgarinnar hafa skýrslur verið samdar af minna tilefni. Upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa um málið hefur verið í lágmarki.

Forysta Framsóknarflokksins í málinu hefur því engin verið. Svo virðist sem að fulltrúar flokksins sætti sig við að aðrir flokkar í meirihlutasamstarfinu láti draga sig á asnaeyrunum. Samt er það framsóknarmaður sem er borgarstjóri og búinn að vera það í rúmt ár.

Loka á annarri flugbrautinni að óbreyttu

Fram hefur komið í fréttum hinn 6. febrúar 2025 að Samgöngustofa hafi gefið út fyrirmæli um að loka annarri flugbraut Reykjavíkurflugvallar þar eð mælingar „Isa­via inn­an­lands­flug­valla frá októ­ber sl. staðfesta að trjá­gróður hef­ur vaxið upp í hindr­anafleti Reykja­vík­ur­flug­vall­ar og því er ekki hægt að tryggja hind­rana­laust aðflug og flug­tak á flug­braut 13/​31“. Með öðrum orðum, á borgarstjórnarvakt Framsóknarflokksins hefur trjágróður í Öskjuhlíð vaxið upp í hindranafleti sem eiga að vera hindranalausir. Verði þetta niðurstaðan er lítið orðið eftir af rekstrarhæfi Reykjavíkurflugvallar.

Hvernig á að losna úr prísundinni?

Í viðtali hjá Spursmálum Morgunblaðsins, sem birt var 5. febrúar 2025, var Einar Þorsteinsson borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn, spurður út í flugvallarmálið og í framhaldinu lét hann svohljóðandi ummæli falla:

„Ég skal bara vera hrein­skil­inn, það hrikt­ir aðeins í, í kring­um þetta mál – og eðli­lega. Afstaða Sam­fylk­ing­ar og Pírata, og að ein­hverju leyti Viðreisn­ar líka, hef­ur al­veg verið skýr að þau vilja flug­völl­inn burt. Við höf­um ekki verið þar.“

Vissulega er hreinskilni þessi til eftirbreytni en er ekki meira um vert að Framsóknarflokkurinn reki af sér slyðruorðið og losi sig úr þeirri prísund sem núverandi meirihlutasamstarf í borgarstjórn er?

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×