Viðskipti erlent

Sagðir ætla að hafna sam­runa við Honda

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá því þegar forsvarsmenn Nisan og Honda tilkynntu í fyrra samvinnu þeirra á sviði rafmagnsbíla. Makoto Uchida er forstjóri Nissan og Toshihiro Mibe er forstjóri Honda.
Frá því þegar forsvarsmenn Nisan og Honda tilkynntu í fyrra samvinnu þeirra á sviði rafmagnsbíla. Makoto Uchida er forstjóri Nissan og Toshihiro Mibe er forstjóri Honda. EPA/KIMIMASA MAYAMA

Útlit er fyrir að ekkert verði að samruna Nissan og Honda, bílaframleiðendanna japönsku. Stjórn Nissan er sögð ætla að hafna samrunanum, sem hefði skapað þriðja stærsta bílaframleiðanda heims.

Um tveir mánuðir eru síðan fregnir bárust af því að samruni þessi væri til skoðunar en bæði fyrirtækin hafa átt í erfiðleikum í baráttu við kínverska framleiðendur sem hafa aukið markaðshlutdeild sína töluvert að undanförnum.

Honda var stofnað árið 1948 og Nissan árið 1933. Fyrirtækin eru annar (Honda) og þriðji (Nissan) stærstu bílaframleiðendur Japan og gæti samruni haft veruleg áhrif á iðnaðinn þar og í heiminum. Verði af samruna fyrirtækjanna gæti það fyrirtæki orðið þriðji stærsti bílaframleiðandi heims.

Wall Street Journal hefur eftir heimildarmönnum sínum innan Nissan að lokaákvörðun hafi ekki verið tekin en að stjórn Nissan muni koma saman í dag og þar standi til að hætta við samrunann.

Er það í kjölfar þess að stjórn Honda lagði fram nýja tillögu sem myndi í raun gera Nissan að undirfélagi Honda, í stað hefðbundnari og jafnari samruna. Stjórnarmeðlimum Nissan hefur ekki litist á þessa tillögu og eru sagðir ætla að hafna henni.

Ekki stendur þó til að hætta samvinnu fyrirtækjanna á ýmsum sviðum sem ætlað er að draga úr kostnaði og þá sérstaklega á sviði rafmagnsbíla.

Hafni stjórn Nissan samrunanum yrði samkvæmt WSJ mikill þrýstingur á stjórnina að sannfæra hluthafa, lánardrottna og starfsmenn um að þeir geti staðið af sér samkeppni og samdrátt í Kína og í Bandaríkjunum, þar sem verulega hefur dregið úr sölu hjá félaginu.

Vegna þessa var tilkynnt í fyrra, áður en viðræður um samrunann voru opinberaðar, að Nissan ætlaði að segja upp níu þúsund starfsmönnum í sparnaðarskyni. Verðmæti Nissan er orðið minna en fimmtungur verðmætis Honda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×