Erlent

And­staða gegn banni við hjóna­böndum syst­kina­barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gagnrýnendur frumvarpsins hafa einnig bent á að það sé ekki gott að stuðla að því að fólk gangi síður í lögformlegt hjónaband og fari þannig á mis við ákveðin réttindi.
Gagnrýnendur frumvarpsins hafa einnig bent á að það sé ekki gott að stuðla að því að fólk gangi síður í lögformlegt hjónaband og fari þannig á mis við ákveðin réttindi. Getty

Sérfræðingar segja nýtt frumvarp um bann gegn hjónböndum systkinabarna bæði óframfylgjanlegt og til þess fallið að skapa sundrung í samfélaginu.

Richard Holden, þingmaður Íhaldsflokksins fyrir Basildon og Billericay, er flutningsmaður frumvarpsins en hann segir hjónabönd systkinabarna ógn við heilsu, frelsi og samfélagið í heild.

Líkt og fjallað er um á Vísindavef Háskóla Íslands eykur skyldleikaæxlun líkurnar á að barn erfi sjaldgæfar víkjandi stökkbreytingar sem finna má hjá báðum foreldrum. Þetta getur leitt til sjúkdóma á borð við dreyrasýki, slímseigjusjúkdóms og ýmissa vöðvarýrnunar- og hrörnunarsjúkdóma.

Umfangsmikil rannsókn á heilsufari íbúa í Bradford í Vestur-Jórvíkurskíri, Born in Bradford, leiddi í ljós að sex af hverjum 100 börnum sem fæddust systkinabörnum hefðu erft víkjandi stökkbreytingu eða erfðagalla.

Hjónaböndum systkinabarna hefur fækkað verulega en þau eru algengust meðal múslima. Talsmaður Ahmadiyya Muslim Community UK, sem um 30 þúsund múslimar tilheyra, segir bann myndu grafa undan réttindum hópsins og kynda undir fordóma.

Hjónabönd innan fjölskyldna væru oft til þess gerð að stykja fjölskylduna og ýta undir stöðugleika og samheldni.

Sérfræðingar, til að mynda prófessorinn Neil Small, sem er einn höfunda Born in Bradford, eru einnig á móti banninu. Small segir hjónabönd systkinabarna vissulega ýta undir hættuna á ungbarnadauða og veikindum en önnur ráð séu til en bann.

Small og fleiri hafa stungið upp á því að auka fræðslu og að aðgengi að erfðaprófum verði aukið, til að hjálpa fólki að taka upplýstar ákvarðanir.

Önnur umræða um frumvarpið fer fram í dag.

Guardian fjallar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×