Körfubolti

Ætlar að hella í sig þegar Stephen Curry hættir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hefur fengið nóg af Stephen Curry.
Hefur fengið nóg af Stephen Curry. Jason Miller/Getty Images

Stephen Curry hefur verið einn besti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta undanfarinn áratug eða svo. Þó hann hafi skemmt fjölmörgum aðdáendum Golden State Warriors og körfubolta yfir höfuð þá eru sumir sem geta ekki beðið eftir því að þessi magnaði leikmaður leggi skóna á hilluna.

Curry og leikstíll Warriors hefur hjálpað til við að umturna því hvernig körfubolti er spilaður en leikmaðurinn er hvað þekktastur fyrir ótrúlega hittni sína úr skotum fyrir aftan þriggja stiga línuna. Þá hefur hann reglulega skorað mikilvægar körfur úr fáránlegum skotum lengst utan af velli.

Hinn 36 ára gamli Curry hefur spilað vel á þessari leiktíð og er með að 23 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst að meðaltali í leik til þessa á leiktíðinni. Hann gerði gott betur gegn Toronto Raptors nýverið þar sem hann skoraði 26 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók einnig 7 fráköst. Það dugði hins vegar ekki til sigurs þar sem Raptors vann leikinn með þriggja stiga mun, 104-101.

Eftir leik var Darko Rajaković, þjálfari Raptors, spurður hversu erfitt það væri að þjálfa gegn leikmanni eins og Stephen Curry. Það verður seint sagt að Rajaković hafi farið eins og köttur í kringum heitan graut þegar kom að svari.

„Ég get ekki beðið eftir að hann hætti. Ég ætla að vera drukkinn það kvöld.“

Þrátt fyrir góða spilamennsku Curry á leiktíðinni hefur Warriors átt erfitt uppdráttar og er liðið sem stendur í 12. sæti Vesturdeildarinnar með aðeins 19 sigra í 39 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×