Erlent

Biden segir vopnahlésviðræður á lokametrunum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Komandi vika er síðasta vika Joe Biden í embætti. Samningamenn stefna að því að ljúka vopnahlésviðræðum áður en Trump tekur við embætti. 
Komandi vika er síðasta vika Joe Biden í embætti. Samningamenn stefna að því að ljúka vopnahlésviðræðum áður en Trump tekur við embætti.  AP

Sáttasemjarar í Katar kynntu embættismönnum Ísraels og Hamas lokadrög að vopnahléstillögu í kvöld. Tillagan er sögð fela í sér endalok stríðsins á Gasa og Bandaríkjaforseti segir viðræður á lokametrunum. 

Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir embættismanni viðloðandi viðræðurnar. Um miðnætti hafi orðið þáttaskil í viðræðunum, en bæði Joe Biden fráfarandi Bandaríkjaforseti og Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti hafa átt þátt í viðræðunum. 

Miðillinn hefur eftir Biden að samningur sem hann lagði til og fæli í sér vopnahlé á Gasa og lausn gísla væri á barmi þess að verða að veruleika. Hamas hafi lýst yfir áhuga á að komast að samkomulagi. 

Gasa mynduð í dag frá suðurhluta Ísrael. AP/Ariel Schalit

„Samkvæmt samningnum yrðu [...] gíslarnir frelsaðir, átökin yrðu minni, öryggi við Ísrael aukið sem og mannúðaraðstoð við Palestínumennina sem þurftu að þjást í þessu stríði sem Hamas byrjaði,“ sagði Biden í ræðu fyrr í kvöld. Ísraelskur embættismaður segir Reuters að allt tillagan feli í sér lausn allt að 33 gísla.

Fram kemur að tillagan hafi verið kynnt bæði fulltrúum Ísraels og Hamas í Doha höfuðborg Katar í kvöld. Áframhaldandi viðræður séu fyrirhugaðar í fyrramálið. Búist er við að erindrekar bæði Trump og Biden verði viðstaddir. 

Þá hefur fréttastofa AP eftir bandarískum embættismanni að allar hliðar væru nær því að ná samkomulagi en nokkru sinni fyrr, en þó sé enn of snemmt að fagna. Tveir embættismenn, þar af einn tengdur Hamas, segja miðlinum að enn eigi samningamenn langt í land. Bandaríkjamenn hafi áður sagt vopnahlésviðræður á lokametrunum en ekkert orðið úr. 

Donald Trump verður formlega settur inn í embætti Bandaríkjaforseta mánudaginn 20. janúar. Heimildarmenn AP segja næsta sólarhring skipa lykilmáli í viðræðunum en efast um að samkomulagi verði náð innan þess tíma. Þó sé stefnt á að ná sáttum fyrir innsetningu Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×