Fótbolti

Lech Poznan að kaupa Gísla: Mættur í læknis­skoðun

Aron Guðmundsson skrifar
Gísli Gottskálk mættur í æfingafatnað hjá Lech Poznan. Spennandi skref hjá þessum öfluga leikmanni.
Gísli Gottskálk mættur í æfingafatnað hjá Lech Poznan. Spennandi skref hjá þessum öfluga leikmanni. Mynd: Lech Poznan

Víkingur Reykjavík hefur samþykkt kauptilboð pólska liðsins Lech Poznan í Gísla Gottskálk Þórðarson og skrifar hann undir fjögurra og hálfs árs samning í Póllandi að lokinni læknisskoðun í dag.

Frá þessu greina Víkingar í færslu á samfélagsmiðlum en mikill áhugi hefur verið á kröftum Gísla erlendis frá og er nú orðið ljóst að Lech Poznan hefur unnið kapphlaupið um leikmanninn. 

Gísli er sem stendur í læknisskoðun hjá félaginu og verða félagsskiptin staðfest að henni lokinni, að því gefnu að Gísli standist læknisskoðun.

Hinn tvítugi Gísli Gottskálk er á sínu öðru tímabili með Víkingum eftir að ganga til liðs við félagið þegar hann sneri heim eftir að hafa verið á mála hjá Bologna á Ítalíu. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki.

Gísli flaug til Póllands í gær og hóf læknisskoðun hjá Lech Poznan í morgun. Skoðun sem mun teygja sig inn í daginn og er svo búist við því að hann skrifi undir samning og að félagsskiptin verði staðfest. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×