Fram kemur að munurinn milli ára skýrist helst af breytilegum tekjum af IoT þjónustu annars vegar og afskrifta sem voru lægri vegna endursamninga við birgja hins vegar, samtals upp á 706 m.kr.
Greint verður ítarlegar frá þessu í fjárfestakynningu sem birt verður fyrir fjárfestafund sem haldinn verður fimmtudaginn 29. ágúst kl 08:30.
Árangur í samræmi við afkomuspá
„Árangur félagsins á fyrri helmingi ársins er í fullu samræmi við forsendur afkomuspár fyrir árið 2024 sem félagið birti 2. júlí síðastliðinn og gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður, án nokkurra leiðréttinga vegna einskiptiskostnaðarliða, verði á bilinu 900 til 1.100 m.kr,“ segir í tilkynningu.
Þá telja stjórnendur félagsins að full ástæða sé til að ætla að áætlun félagsins fyrir árið 2024 standist, og gera þeir jafnframt ráð fyrir verulegum jákvæðum viðsnúningi á sjóðstreymi frá rekstri félagsins á seinni helmingi ársins.
„Félagið er á réttri leið með að ná skilvirknimarkmiðum sínum um að skila 6-800 m.kr. í rekstrarbata á ársgrundvelli á síðari hluta ársins 2024. Rekstrarbatinn ætti að skila félaginu 1.500-1.700 m.kr. í rekstrarhagnað (EBIT) á árinu 2025 án tillits til annara verkefna sem koma inn á því ári.“
Tekjur af fjölmiðlastarfsemi og þjónustutekjur á uppleið
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, segir að Sýn hafi náð góðum árangri á lykilsviðum. Tekjur af fjölmiðlastarfsemi og þjónustutekjur séu á góðri uppleið, og fyrirtækið sjái jákvæða þróun í fjölda viðskiptavina í IoT þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í tekjum.
„Samanburður á fyrri helmingi ársins 2024 við sama tímabil 2023 tekur mið af nokkrum sértækum þáttum, meðal annars lægri IoT tekjum, hraðari afskriftum sýningarétta og jákvæðum áhrifum afskrifta í endursamningi við erlendan birgja á síðasta ári. Þessir þættir gera samanburð á milli ára nokkuð flókinn,“ segir Herdís.
„Við höfum metnaðarfull áform fyrir komandi misseri og erum að vinna markvisst að mótun nýrrar stefnu sem verður kynnt fyrir markaðnum á fjárfestadegi Sýnar þann 7. nóvember næstkomandi. Áherslan verður á skilvirkni, vöxt og samvinnu sem eru helstu drifkraftar vegferðar okkar til framtíðar,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.
Vísir er í eigu Sýnar