Tíðindin staðfestir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við Fótbolti.net. Pablo fór meiddur af velli í leik Víkings gegn Egnatia í forkeppni Sambandsdeildarinnar í síðustu viku.
Ljóst er að gríðarlegt skarð er höggvið í lið Víkinga, en Pablo hefur verið einn mikilvægasti leikmaður liðsins frá því að hann gekk í raðir Víkings árið 2021. Síðan þá hefur hann tvívegis orðið Íslandsmeistari, sem og bikarmeistari í tvígang.
Pablo, sem er 34 ára gamall landsliðsmaður El Salvador, er samningsbundinn Víkingum út næsta tímabil. Ljóst er að hann leikur ekki meira með liðinu á yfirstandandi tímabili, og líklegt er að hann muni missa af upphafi næsta tímabils.