Íslenski boltinn

Hall­grímur: Við hefðum getað skorað sjö mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallgrímur Jónasson var ánægður með leikinn í kvöld.
Hallgrímur Jónasson var ánægður með leikinn í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var kátur í leikslok í kvöld eftir að hafa slegið stórlið Valsmanna út úr bikarnum og komist þar með í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð. Þetta hefur verið erfitt sumar fyrir KA-menn en Hallgrímur er búinn að koma sínum mönnum á beinu brautina.

„Ég er ótrúlega ánægður með strákana, hugarfarið og vinnusemina. Bara æðislegt. Við skorum þrjú mörk og við hefðum getað skorað sjö. Leikurinn þróast eins og hentar okkur. Við komust yfir og mér finnst við vera með yfirhöndina. Það er svaka pláss að fara á þá þegar þeir fara upp með marga,“ sagði Hallgrímur í viðtali á RÚV eftir leikinn.

„Hugarfarið var gott. Við vitum að við erum góðir þegar við hittum á okkar dag. Mér finnst við vera á ótrúlega góðum stað núna. Okkur hlakkar agalega til að fara með okkar fólk á Laugardalsvöll. Annar séns á að vinna titil sem við höfum aldrei unnið, annar séns að fara aftur í Evrópu. Við erum gríðarlega ánægð,“ sagði Hallgrímur en KA tapaði fyrir Víkingi í bikarúrslitaleiknum í fyrra.

„Þetta er mjög sætt. Það eru virkilega mikil gæði í mínu liði. Okkar vandamál í byrjun móts var að það var eins og við værum smá þunnir eftir árangur síðustu ára. Nú eru menn bara vaknaðir,“ sagði Hallgrímur.

„Við erum með gæði fram á við. Ef allir sinna vörninni vel þá munum við skora mörk og vinna fótboltaleiki. Við þurftum bara að laga þetta og það tekur tíma að vinna með svona hluti. Mér finnst það vera komið núna,“ sagði Hallgrímur.

„Staðan núna er frábær. Við leyfum okkur að fagna í kvöld og kannski aðeins á morgun. Síðan er bara full einbeiting á deildina. Þó að það sé búið að ganga vel þar undanfarið þá erum við samt sem áður í botnbaráttu. Ef þetta lið leggur sig svona fram þá hef ég engar áhyggjur,“ sagði Hallgrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×