Í tilkynningu félagsins segir að þessi nýja stefnumörkun komi þegar fyrirtækið búi sig núna undir að hefja prófanir á vélbúnaði ES-30 flugvélarinnar. Rannsóknar- og þróunarmiðstöðin í Los Angeles muni einbeita sér að þróun á tvinnhreyflakerfi hennar og annarri lykiltækni. Þá muni fyrirtækið flytja prufueintak, sem búið er að gera af vélinni í fullri stærð, frá Svíþjóð til Bandaríkjanna.
Til að leiða miðstöðina hefur Heart Aerospace ráðið Benjamin Stabler, sem meðal annars hefur stýrt vélbúnaðar- og hugbúnaðarteymi hjá SpaceX. Hann hafði áður byggt upp fyrirtækið Parallel Systems, sem þróaði sjálfakandi rafdrifna vöruflutningavagna. Segist Heart Aerospace fá mikla reynslu með komu hans.

Anders Forslund, stofnandi og forstjóri Heart Aerospace, segir Los Angeles augljósan kost fyrir rannsóknar- og þróunarmiðstöð fyrirtækisins í ljósi ríkar sögu borgarinnar og Kaliforníu í nýsköpun. Höfuðstöðvar Heart Aerospace verði áfram í Gautaborg. Haft er eftir Forslund að stefnt sé að fyrsta raffluginu á næsta ári og að sótt verði um tegundarvottun árið 2028.
ES-30 flugvélin er þróuð fyrir styttri flugleiðir. Gert er ráð fyrir að flugdrægi hennar á rafmagni verði 200 kílómetrar en tvinn-eiginleikar auki drægið upp í 400 kílómetra.
Heart Aerospace hefur þegar fengið 250 pantanir í flugvélina, með valréttum og kauprétti fyrir aðrar 120 flugvélar. Þá hefur félagið hefur einnig viljayfirlýsingar um 191 flugvél til viðbótar.
Icelandair er í hópi flugfélaga sem skrifað hafa undir viljayfirlýsingu um kaup á vélinni og miðar við að fá fimm slíkar í innanlandsflugið en félagið er aðili að fagráðsvettvangi um þróun hennar. Ráðamenn Icelandair hafa sagt að þeir telji raunhæft að orkuskiptin í farþegafluginu hefjist fyrir lok þessa áratugar, eins og fram kom í þessari frétt Stöðvar 2: