Starfsfólk Spilavina segist aldrei hafa selt jafn stórt púsl og segist jafnframt ekki vita til þess að nokkur hafi púslað jafnstórt púsluspil á Íslandi.
Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, ræddi við púsldrottninguna Ásdísi Hrund Ólafsdóttur um púslið.
Hvað tók þig þetta langan tíma?
„Þetta tók mig fjóra mánuði,“ segir Ásdís sem var í vel rúmlega fullri vinnu með, eins og hún orðar það.
Hvernig kemurðu þessu fyrir?
„Þetta er bara svo skemmtilegt. Maður sest við eftir vinnu og svo langar mann ekkert að fara að sofa,“ segir hún.
Hvað ertu búin að púsla lengi?
„Ég hef alltaf púslað en bara púslið sem maður á uppi í skáp. Svo kaupir maður sér nýtt á jólunum. En aldrei neitt í líkingu við þetta,“ segir Ásdís.
Eigandi Spilavina lofaði plássi fyrir púslið
Aðspurð hvað verði til þess að hún lagði í risapúslið bendir hún á Svanhildi Evu Stefánsdóttur, eiganda Spilavina.
„Þær áttu þetta púsl upp á 42 þúsund bita og mér fannst það ógeðslega spennandi. Ég hef komið hérna í gegnum tíðina og var alltaf að skoða púslið,“ segir Ásdís sem var staðráðin í að kaupa púslið.
„Ég kem til Svanhildar og segi henni að mig langi svo í púslið en hafi ekki pláss fyrir það á gólfinu heima hjá mér. Þó ég hliðri til öllum húsgögnunum þá komist það ekki fyrir. Og það er svolítið glatað að kaupa sér púsl sem þú getur aldrei sett saman,“ segir hún.
Sölukonan Svanhildur hugsaði í lausnum „Ég sá ekki neitt vandamál, allar hillur eru hjá mér á hjólum og ég get hreyft þetta allt til. Ég sagði „Við tökum hérna kvöldstund og setjum þetta saman, fáum okkur eitthvað að drekka og njótum þess að horfa á þetta.“