Nemandinn hafði farið í skiptinám til Bandaríkjanna haustið 2022. Meðan á því stóð hafði hann í líflátshótunum við samnemanda sinn og var kærður til lögreglu vestanhafs. Nemandinn játaði háttsemina.
Í febrúar í fyrra sendi deildarforseti Lyfjafræðideildar skólans bréf á nemandann þar sem talið væri að háttsemi nemandans bryti í bága við lög um háskóla. Nemandinn fékk tíma til að svara erindinu, en gerði það ekki og í kjölfarið var honum vikið úr skólanum.
Iðrast sárlega
Í kjölfarið sendi lögmaður nemandans erindi á skólann og krafðist þess að mál hans yrði tekið upp að nýju. Það var samþykkt, og hann fékk aftur frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri og gerði það að þessu sinni.
Fram kom í athugasemdum nemandans að hann væri greindur með alvarlegan geðsjúkdóm og þyrfti að vera undir eftirliti lækna, en að það hefði farið úr skorðum í dvölinni í Bandaríkjunum og lyfjastillingu verið ábótavant. Því hafi hann lent í geðrofi, glímt við ranghugmyndir, aðsóknarkennd og ofsahræðslu og verið nauðungarvistaður eftir að hann kom aftur til Íslands. Hann hefði í kjölfar þessa fengið viðeigandi meðferð og lyfjastillingu, og væri ekki lengur í geðrofi og sinnti eftirliti með sjúkdómi sínum.
Jafnframt kom fram að hann iðraðist sárlega framkomu sinnar og að hann hefði þurft að taka alvarlegum afleiðingum hennar.
Skólinn féllst ekki á að draga ákvörðun sína til baka. Forseti Heilbrigðisvísindasviðs sagði háttsemi nemandans hafa verið verulega ógnandi og til þess fallna að valda miklum ótta. Háttsemin væri svo alvarleg að áminning kæmi ekki til álita, heldur væri rétt að víkja honum úr skólanum. Veikindi nemandans gætu ekki leyst hann undan ábyrgð á gjörðum hans.
Nemandinn fór í kjölfarið með málið til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.
Hagsmunir felist í því að skólinn bíði ekki hnekki
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi nemandans væri til þess fallinn að tilefni hafi verið til að beita umræddum agaviðurlögum. Jafnvel þótt fallist væri á að skýringin á háttseminni fælist í andlegum veikindum nemandans.
„Að mati nefndarinnar verður að fallast á að HÍ hafi af því ríka hagsmuni af því, annars vegar að nemendur og starfsfólk skólans telji sig örugga í því umhverfi sem skólinn býður upp á og, hins vegar, að orðspor skólans og virðing fyrir honum bíði ekki hnekki,“ segir í úrskurðinum.
Fram kemur að rektor Háskóla Íslands geti að hæfilegum tíma liðnum heimilað nemandanum að skrá sig aftur til náms ef aðstæður hans hafa breyst.