Skoðun

Tækni­fram­farir eru ekki náttúru­ham­farir

Halldóra Lillý Jóhannsdóttir skrifar

Ég er ekki með stúdentspróf og ekki heldur grunnskólapróf. Ég er samt með meistarapróf í lögfræði frá HÍ, af því að þegar ég var lítil var mér kennt að lesa, án truflunar frá algrímisstýrðum samfélags- og andfélagsmiðlum. Ég upplifði bernskuna og var viðstödd æskuna.

Ábyrgð á uppeldi hvílir á foreldrum sem eiga að veita börnum sínum tilhlýðilega leiðsögn og hafa með þeim viðeigandi eftirlit. Hlutverk skóla er að mennta börn og að búa þau undir samfélagið. Markmið menntunar er að styðja við heildrænan þroska barna, sem felur í sér samsvarandi kröfu, um að menntun sé búin ákveðnum gæðum eða eiginleikum sem orka á þann veg að vera jákvæður áhrifamáttur þegar kemur að heildrænum þroska barna.

Víða er fjallað um vernd, velferð og réttindi barna í íslenskum og alþjóðlegum rétti. Yfirgripsmikil vernd réttinda barna helgast af því þroska- og reynsluleysi sem einkennir börn og veldur því, að þau eiga fremur undir högg að sækja en fullorðnir einstaklingar en, þrátt fyrir að börn séu fjölbreyttur hópur sem innbyrðis hefur ólíkar þarfir, eiga þau sameiginlegt þetta þroska- og reynsluleysi og það er m.a. þess vegna sem við tryggjum vernd barna í ákvæði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar - af því að börn eiga rétt á að þroskast jafnhliða tilvist sinni.

Tengsl þroska og menntunar

Hvað er átt við með réttinum til lífs og þroska? Gerast líf og þroski ekki af sjálfu sér og nànast ósjálfrátt, frá því tímamarki sem þú fæðist? Er það ekki fullnægjandi í nútímasamfélagi að börn séu í hreinum fötum, séu ekki svöng, að þau fari ekki upp í bíl með ókunnugum og passi sig á sjónum, á dónakarlinum og klifri ekki upp á nýbyggingar án eftirlits? Með þessari forsjálni, er málið ekki leyst og allir fara í MR?

Þegar við sköpum líf og komum með það heim til okkar ber okkur að skapa því frjósaman farveg og tækifæri til vaxtar og þroska. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem hefur eftirlit með framgangi Barnasamningsins í aðildarríkjum gefur stundum út athugasemdir um túlkun einstakra ákvæða hans. Í tengslum við réttinn til lífs og þroska hefur nefndin undirstrikað að markmiðið með menntun barna sé aflvaki heildræns þroska og að börn geti ekki náð heildrænum þroska án þess að rétturinn til menntunar sé tryggður.

Í nútímasamfélagi er stafræn tækni allsráðandi sem gerir kröfu um stafræna hæfni í þágu stafrænnar æsku. Stafrænar gjár liggja þvers og kruss um allt, sem aðgreina ekki aðeins kynslóðir frá kynslóðum, heldur heilu svæðin og stéttirnar. Þetta eru börn með greiningu og/eða aðgreiningu? Með tilstyrk persónuupplýsinga, fótspora og algóritma getur nánast hver sem er sem vantar pening, ákvarðað aðgengi barna að stafrænu umhverfi sem m.a. er gert á grundvelli persónueinkenna og veikrar stöðu.

Stafræn mismunun er áþreifanleg, sem birtist í því að félagsleg og efnahagsleg uppvaxtarskilyrði sem ekki eru á valdi barna eru samt að bitna á þeim í formi úthlutaðs aðgengis að stafrænu umhverfi. Viðhorfabankinn tekur á móti nýjum viðskiptavinum, börnunum og rennir þeim í endurómunartækinu, inn í best selda bergmálshellinn. Skjávaðahellir er endastöðin þar sem börnunum er hleypt út og þar eru þau skilin eftir og greind í sundur til að máta sig og skilgreina og á þennan máta eru börnum settar misjafnar skorður eftir aðstæðum sínum eða ekki sínum.

Skjávaðinn

Þriðjungur notenda internetsins á heimsvísu eru börn og þegar kemur að ungmennum sem eru á aldrinum 15-24 ára er notkunarhlutfallið 79%. Í aldurshópi 15-24 ára ungmenna, sem jafnframt tilheyra hátekju-, efri- og millistéttum, er notkunarhlutfallið 95% - sem hlutfallslega er 14% meiri notkun en í öðrum aldurshópum þar sem notkunarhlutfallið er 65%.

Stafrænt umhverfi getur framkallað hvata að fjandsemi og friðsemd, að átökum og sáttum en það hvoru megin barnið þitt lendir helst í hendur við aðgengið sem það hefur, sem grundvallað er á algríminu og sem auk menntunar og uppeldis ákvarðar getuna sem barn hefur til að greina upplýsingaumhverfið. Svart eða hvítt - allt eða ekkert.

Þegar svona miklar andstæður mætast, skapast jafnan glundroði sem fæðir af sér átök, sem ala af sér gerendur og þolendur, sem orsakar ástand. Ástand sem birtist í því að kennarar og foreldrar komast ekki lengra en það að slökkva elda gærdagsins og ekkert færist áfram, þótt öllu sé reddað og allir eru ómeðvitað á biðlista eftir kulnun.

Nýleg rannsókn sem birtist í Journal of Psychiatric Research sýnir sterk tengsl á milli óhóflegs skjátíma barna víðsvegar um Bandaríkin og ýmissa þroska- og hegðunarvandamála. Rannsóknarandlagið voru börn á öllum aldri, frá ungum börnum til stálpaðra unglinga.

Ærandi skjávaðinn kristallast í magnþrungnu andvaraleysi og tilgangslausum rifrildum, andsvörum, aðdróttunum, misskilningi og móðgunum - gaslýsingum og smættunum. Samtímis sitja börnin okkar með sætisólar spenntar og glyrnurnar glenntar að lesa þetta sama umhverfi með 60% lesskilning (Pisa, 2023). Algrímið og aðgengið eru farin að gefa sál barnsins þíns að borða og þér líka. Allt sem þið vogið ykkur að smakka verður það sem þið munið alltaf borða.

Aðgengi barna að stafrænni tækni þarf að vera ígrundað og endurspegla ásetning um að tryggja lágmarksvernd, jöfn tækifæri og jafna forgjöf. Skilvirkni samfélagsins og samkeppnisstaða krefjast þess.

Það er samt ekki nóg að föndra stefnu sem er yfirfull af mælskulsnilld og fögrum fyrirheitum heldur þarf að fylgja henni eftir og innleiða hana efnislega og samþætta inn í allt starf með börnum, af því að þegar mismunun er grundvölluð á efnahags- eða félagslegum breytum hvort sem þær eru tímabundnar eða varanlegar, er uppi málefnalegur forsendubrestur fyrir mismunun.

Skjáhrif þurfa að leiða til skjávinnings og það þarf að kenna börnum að færa sér stafræna tækni markvisst í nyt. Öll börn þurfa að hafa aðgang að stafrænni tækni án endurgjalds og aðgengi getur ekki verið misjafnt eftir aðstæðum þeirra, búsetu eða öðrum þáttum. Við þurfum að hafa netvistartíma, sem tryggir að börn sem búa við vanrækslu fái lágmarkssvefn til að vera í stakk búin til að meðtaka menntun morguninn eftir og það er brýnt að við sem samfélag vinnum að því, að móta viðmið og aðferðir sem leiða til frjósamara stafræns umhverfis, umhverfis sem er örvandi og krefjandi. Þetta getur falið í sér að koma þarf á skjálögum en það er samt örugglega betra en að hafa öll þessi börn undir álögum?

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×