Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð þrjú. Hann segir útkallið hafa borist klukkan 13:35.
Skólameistari FB sagðist í samtali við Vísi ekkert geta tjá sig um málið og vísaði á lögreglu. Vakthafandi varðstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Vísi að um væri að ræða lögreglumál og vísaði sömuleiðis á lögregluna.
Sjónarvottur lýsti því í samtali við Vísi að sérsveit Ríkislögreglustjóra hefði ekið gegn umferð á Sæbraut við Skútuvog í Reykjavík á fjórtánda tímanum.
Töluverður fjöldi annarra lögreglubifreiða hafi verið í fylgd með sérsveitinni, bæði merktir og ómerktir.
Tilkynnt um einn mann og seinna þrjá
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér fréttatilkynningu klukkan 14:30 þar sem sagði frá miklum viðbúnaði lögreglu í Breiðholti eftir hádegi. Maður í hverfinu hafi haft uppi alvarlegar hótanir og verið handtekinn.
Í uppfærðri tilkynningu klukkan 15:23 segir að þrír séu í haldi haldi lögreglu eftir umfangsmiklar aðgerðir hennar í Breiðholti í dag. Einn þeirra hafi verið handtekinn á heimili sínu eftir að hafa haft uppi alvarlegar hótanir um ofbeldi á samfélagsmiðlum. Hinir tveir hafi verið handteknir í kjölfar þess að lögreglumenn veittu athygli tveimur mönnum í bifreið í hverfinu. Þeir hafi verið klæddir í eftirlíkingu af varnarvesti lögreglumanna, en við handtöku hafi fundist skotvopn sem reyndust eftirlíkingar af raunverulegum skotvopnum.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum, ljósmyndum og myndskeiðum á ritstjorn@visir.is.