Embiid er níundi leikmaðurinn í sögu NBA sem skorar sjötíu stig eða meira í einum leik. Metið á Wilt Chamberlain en hann skoraði hundrað stig í sigri Philadelphia Warriors á New York Knicks, 169-147, 2. mars 1962.
Chamberlain lék með Sixers hluta af ferlinum og átti metið yfir flest stig í einum leik í sögu félagsins (68), allt þar til Embiid sló það í nótt.
„Að vera nefndur í sömu andrá og Wilt er frekar svalt. Þetta var bara frábært kvöld. Ég var í stuði. Eins og ég hef sagt spila ég með óeigingjörnum leikmönnum og þeir héldu áfram að gefa á mig og ég kláraði færin,“ sagði Embiid eftir leikinn.
Auk þess að skora sjötíu stig tók Embiid átján fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Enginn leikmaður í sögu NBA hefur boðið upp á slíka tölfræðilínu í einum og sama leiknum.
Embiid hitti úr 24 af 41 skoti sínu utan af velli í leiknum í nótt og skoraði 21 stig af vítalínunni. Hann komst upp í sjötíu stig þegar hann skoraði með sniðsskoti þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum.
AN HISTORIC 70-POINT NIGHT FOR JOEL EMBIID
— NBA (@NBA) January 23, 2024
76ers franchise record
9th player in NBA history to score 70+
A new career high
70 PTS, 18 REB, 24/41 FGM, 21/23 FTM pic.twitter.com/gDKY2E9bVA
Embiid er stigahæstur í NBA í vetur með 36,1 stig að meðaltali í leik. Hann er því á góðri leið með að verða stigakóngur deildarinnar þriðja árið í röð.
Sixers, sem hefur unnið sex leiki í röð, er í 3. sæti Austurdeildarinnar með 29 sigra og þrettán töp.