Eldgos hófst rétt norðan við Grindavík snemma í morgun. Áður en eldgosið hófst var Grindavíkurbær rýmdur en talið er að gist hafi verið í um 90 húsum í bænum í nótt.
Gestir dvöldu einnig á athafnasvæði Bláa lónsins í nótt þar sem hótel er rekið og var það svæði rýmt sömuleiðis. Fram kom í tilkynningu fyrirtækisins að rýmingin hafi gengið vel og var gestum komið fyrir á öðrum hótelum og starfsfólk fór til síns heima.
Meðal þeirra sem dvöldu á hóteli Bláa lónsins var Linda Henry en hún er eiginkona John W. Henry eiganda enska knattspyrnufélagsins Liverpool. Linda Henry birti myndir af sér og syni þeirra hjóna á Instagram og mátti þar meðal annars sjá mynd sem hún tók í Bláa lóninu seint í gærkvöldi.

Í morgun birti Henry mynd af þeim mæðginum þar sem hún sagði að þau hefðu þurft að rýma hótelið vegna jarðskjálfta á svæðinu.
John W. Henry hefur verið eigandi Liverpool frá árinu 2010 en hann og Linda Henry hafa verið gift síðan árið 2009. Linda er virk á samfélagsmiðlum og fylgir manni sínum oft á leiki á Anfield.
Í sumar tók einn stuðningsmaður sig til og birti innlegg á Instagram þar sem hann hrósaði FSG, fyrirtækinu sem á og rekur Liverpool, eftir kaup félagsins á Alexis Mac Allister og Dominik Szoboszslai. Hann merkti Linda Henry á myndina og bað hana að fyrirgefa ástríðuna.
„Takk fyrir, mér finnst þessi ástríða einstök,“ svaraði Linda, sem er vinsæl meðal stuðningsmanna Liverpool.
