Skjálftinn sem reið yfir í morgun mældist 4,5 að stærð og var svokallaður „gikkskjálfti“. Sú tegund skjálfta merkir spennulosun á svæðinu, ekki að kvika sé á hreyfingu þar sem þær verða.
Þorvaldur var gestur þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og ræddi skjálftann. Hann segir ýmis teikn á lofti um að skjálftavirknin sé að færa sig frá Svartsengi og Fagradalsfjalli og yfir í Trölladyngju.
Á kortinu hér fyrir neðan má sjá kort af Reykjanesskaganum og Trölladyngju. Efst til hægri á myndinni má sjá glitta í höfuðborgarsvæðið.

Trölladyngja er hluti af Krýsuvíkurkerfinu en þar gaus fyrir átta hundruð árum síðar. Kallaðist það Krýsuvíkureldar en við þá myndaðist hraunið við Hafnarfjörð, sem og Ögmundarhraun og önnur minni hraun.
„Það er erfitt að spá langt fram í tímann. Þó virknin sé farin að færast yfir getur það tekið mörg ár að koma öllu af stað og komast í fullan gír, jafnvel áratugi. Það er ekki eins og það sé eitthvað stórt og mikið að fara að gerast þarna á morgun. Ekki þarna. En þetta er þessi nýi raunveruleiki sem við þurfum að lifa við. Við erum komin í eldgosatímabil á Reykjanesskaganum,“ segir Þorvaldur.
Hvað varðar stöðuna í Svartsengi og við Grindavík segir Þorvaldur að það að hægt hafi á landrisi á svæðinu gæti bent til þess að eitthvað sé að fara að gerast.
„Landrisið hægir á sér og það getur bent til þess að við séum komin með það mikinn þrýsting þarna niðri, að það sé búið að teygja það mikið á skorpunni að hún er kannski komin næstum því á brotþol. Ef hún brotnar myndast sprunga, kvika getur komið upp um sprunguna og það getur orðið gos,“ segir Þorvaldur.
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, ræddi nýlega við Harald Sigurðsson eldfjallafræðing um Krýsuvíkurkerfið. Frétt úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan.
Komi til goss verði það þó ekki ýkja stórt enda sé lítið magn af kviku í kvikugeymslunni í Svartsengi.
„Kvikugeymslan þarna er frekar lítil, við erum að tala um frekar lítið rúmmál af kviku. Kannski sex til sjö milljónir rúmmetrar af kviku. Ég held það sé ekki stór kvikugangur þarna undir með miklu flæð,“ segir Þorvaldur.