Erlent

Hamas-liðar sleppa þrettán gíslum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gíslunum var sleppt fyrr í kvöld.
Gíslunum var sleppt fyrr í kvöld. Getty

Hamas-samtökin hafa sleppt þrettán ísraelskum gíslum og nokkrum erlendum ríkisborgurum. Misræmi er þó í yfirlýsingum ríkja um tölu gísla sem sleppt hefur verið í kvöld.

Í kvöld greindu yfirvöld í Katar frá því að þrettán Ísraelum hafi verið sleppt úr haldi á Gasa-ströndinni, auk sjö erlendra ríkisborgara. Áður hafði talsmaður Hamas gefið það út að fresta þyrfti þessum aðgerðum, þar sem að Ísraelar væru „ekki að svara á réttan og jákvæðan hátt,“ frá upphafi vopnahlés á föstudag.

Skömmu síðar var greint frá því að búið væri að leysa þessar deilur og að gíslunum verði sleppt með liðsinni alþjóðanefnd Rauða krossins. Samkvæmt talsmanni utanríkisráðuneytis Katar náðist samkomulag með hjálp Katar og Egyptalands. Þrettán ísraelskum gíslum, þar af átta börn og fimm konur skyldi sleppt í skipti fyrir 39 palestínskar konur og börn, sem sleppt var í gærkvöldi úr ísraelsku fangelsi. 

BBC greinir frá því að frá upphafi vopnahlés hafi 340 trukkar ferjað nauðsynjar inn á Gasa-ströndina. Aðeins 65 trukkar hafa náð til Norður-Gasa sem talsmaðurinn Osama Hamdan segir helmingi færri en Ísrael hafi samþykkt á föstudag. Samkvæmt fréttamiðlum voru það einna helst þessar deilur sem ógnuðu fangaskiptunum fyrrgreindu.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á Vesturbakkanum í gærkvöldi þegar palestínsku föngunum var sleppt:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×