Skoðun

Fram­leiðsla á dilka­kjöti á Ís­landi að hverfa

Anton Guðmundsson skrifar

Árið 2022 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 7.408 tonn. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í framleiðslu á þessu ári 2023 og að framleiðslan fari niður í 7.205 tonn.

Árið 2017 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 9.206 tonn. Frá þeim tíma hefur framleiðsla dregist saman um nær 1.986 tonn, eða 22%. Yfir sama tímabil hefur sauðfé fækkað um 108.000 vetrar fóðraðir ær, eða 23%.

Meðalaldur íslenskra bænda er um 60 ár og nýliðun í bændastéttinni lítil. Erfitt rekstar umhverfi og aukinn innflutningur á kjöti erlendis frá gerir bændum erfitt fyrir.

Bændasamtök Íslands hafa bent á að 12 milljarðar króna vanti inn í íslenskan landbúnað vegna kostnaðarhækkana síðustu ára, meðal annars heimsfaraldursins og stríðsins í Úkraínu sem hafa leitt af sér mikla verðbólgu og afurðaverðshækkanir á aðföngum.

Leggja þarf aukið fé til búvörusamninga til að stuðla að tilvist bænda í íslenskum landbúnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í rammasamninginn og vinna markvisst að því að hvetja ungt og kraftmikið fólk til starfa í landbúnaði og innleiða hlutdeildarlánin út fyrir þéttbýlið.

Núverandi búvörusamningar tóku gildi 1. janúar 2017. Þeir eru gerðir milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands en þar er fjallað um stjórn á framleiðslu búvara og framlaga til landbúnaðarins af hálfu ríkisins. Framlög á fjárlögum vegna búvörusamninganna í ár hljóða upp á 17,2 milljarða króna, nautgriparækt fær um 8,4 milljarða, sauðfjárrækt 6,2 milljarða, garðyrkja rúman milljarð og svo erum við með rammasamninginn sem hljóðar upp á 1,5 milljarða króna. Rammasamningur á að taka utan um jarðræktarstyrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.

Matvælaráðherra þarf að beita sér með mun sterkari hætti og gera sér grein fyrir hversu mikilvæg atvinnugrein landbúnaðurinn er í þessu landi. Þetta snýst í raun um fæðuöryggi þjóðar og fullveldi landsins. Ef fram heldur sem horfir og að landbúnaði verður ekki viðhaldið í landinu þýðir það verulegt tap á gjaldeyri vegna þess að þá þarf að flytja allan mat inn í landið og því fylgir óöryggi sem er afleiðing á að vera ekki sjálfbær í eigin matvælaframleiðslu. Ef ekkert verður aðhafst í málinu núna á næstu misserum, þá er líka verið að kippa stoðunum undan landsbyggðinni og dreifbýli á Íslandi.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.




Skoðun

Sjá meira


×