Enski boltinn

Liverpool þarf að endurgreiða miða er framkvæmdir frestast enn frekar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Einhverjir stuðningsmenn sem hafa fest kaup á miðum á grannaslaginn við Everton munu ekki komast að.
Einhverjir stuðningsmenn sem hafa fest kaup á miðum á grannaslaginn við Everton munu ekki komast að. Getty

Framkvæmdir á Anfield Road stúkunni á Anfield, heimavelli Liverpool, frestast enn frekar og neyðist liðið til að endurgreiða miða á grannaslag liðsins við Everton. 

Verktakafyrirtækið Buckingham Group sem hélt á stækkuninni á vellinum í sumar fór á hausinn en upphaflega var stefnt að því að nýja stúkan yrði klár fyrir fyrsta leik á yfirstandandi leiktíð.

The Times greinir frá því að framkvæmdirnar frestast enn frekar vegna vandamálanna sem gjaldþrotinu hafa fylgt. Eftir að ljóst var að verktakinn gæti ekki klárað verkið og nýr aðili fannst til verksins var stefnt að því að stúkan yrði tilbúin fyrir leik Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni þann 21. október næstkomandi.

Félagið ákvað því að hefja miðasölu á þann leik fyrr í haust en nú liggur fyrir að ekki tekst að uppfylla það markmið. Því neyðist félagið til að vísa einhverjum frá sem höfðu keypt miða í nýju stúkuna og endurgreiða.

Sama gæti átt við um heimaleik við Toulouse í Evrópudeildinni þann 26. október og deildarleik við Nottingham Forest helgina eftir, 29. október.

Í frétt Times kemur fram að framkvæmdirnar tefjist enn frekar og muni ekki klárast fyrr en á nýju ári.

Að framkvæmdunum loknum mun Anfield taka yfir 61 þúsund manns í sæti. Frá því að framkvæmdir voru unnar á meginstúkunni (e. Main Stand) árið 2016 hefur Anfield tekið rúmlega 54 þúsund manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×