Enski boltinn

Eftir krefjandi mánuði stimplaði Arnór sig ræki­lega inn í endur­komunni

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór í leiknum með Blackburn gegn Ipswich um nýliðna helgi.
Arnór í leiknum með Blackburn gegn Ipswich um nýliðna helgi. Vísir/Getty

Íslenski atvinnu- og landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson stimplaði sig inn í lið enska B-deildar liðsins Blacburn Rovers um nýliðna helgi er hann sneri aftur á völlinn eftir meiðsli og skoraði eitt marka liðsins í tapi gegn Ipswich Town. 

Arnór gekk í raðir Black­burn Rovers í sumar á láni frá rúss­neska fé­laginu CSKA Moskva en hann meiddist þó fljót­lega eftir komu sína til Eng­lands. Meiðsli sem höfðu, fyrir komandi helgi, haldið honum fjarri keppni á yfir­standandi tíma­bili.

„Til­finningin var stór­kost­leg,“ sagði Arnór að­spurður hvernig hafi verið að leika sinn fyrsta móts­leik fyrir enska B-deildar liðið Black­burn Rovers. „Ég er stoltur af því að hafa spilað minn fyrsta leik og vil nýta tæki­færið og þakka lækna­liði Black­burn fyrir að koma mér í gegnum þetta meiðsla­tíma­bil.“

Arnór var í byrjunar­liði Black­burn Rovers í leik liðsins gegn Ipswich Town á laugar­daginn síðast­liðinn og skoraði hann eitt marka liðsins í 4-3 tapi.

„Það hefur verið erfitt fyrir mig að koma inn sem nýr leik­maður í fé­lagið en meiðast svo strax. En þó fylgdi því stór­kost­leg til­finning að komast aftur inn á völlinn og skora mitt fyrsta mark fyrir fé­lagið.“

Arnór hefur beðið lengi eftir þessari stundu.

„Að komast aftur inn á völlinn og spila minn fyrsta leik fyrir liðið. Ég hef verið að horfa á leiki Black­burn Rovers á Ewood Park og það fylgir því skrýtin til­finning þegar að maður er meiddur og vill bara spila.

Þessi meiðsli voru þess eðlis að við þurftum að taka var­færnis­leg skref í endur­hæfingunni, taka okkur góðan tíma í þetta og það var það sem að við gerðum. Ég er spenntur fyrir fram­haldinu. “

Black­burn er að ganga í gegnum erfiðan kafla þessi dægrin en þrátt fyrir að hafa skapað sér fullt af færum undan­farið hafa læri­sveinar Jon Dahl Tomas­son tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum í ensku B-deildinni.

„Þetta er erfiður kafli hjá liðinu núna. Við getum leyft okkur að vera von­sviknir en á morgun kemur nýr dagur og við verðum að ein­blína á já­kvæði punktana í okkar leik,“ sagði Arnór Sigurðs­son í við­tali við Rovers TV eftir sinn fyrsta móts­leik með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×