Enski boltinn

„Við elskum allir Jorginho“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mikel Arteta á hliðarlínunni í dag.
Mikel Arteta á hliðarlínunni í dag. Vísir/Getty

Mikel Arteta var ekki tilbúinn að gagnrýna Jorginho vegna mistaka hans sem leiddu til jöfnunarmarks Tottenham gegn Arsenal í dag. 

Lundúnaslagur Arsenal og Tottenham á Emirates-leikvanginum í dag var frábær skemmtun. Arsenal náði forystunni í tvígang en Heung-Min Son jafnaði í bæði skiptin fyrir Tottenham sem hefur byrjað tímabilið vel undri stjórn Ange Postecoglu.

Seinna mark Son í dag kom eftir að Jorginho, sem kom inn af varamannabekknum hjá Arsenal í hálfleik, missti boltann klaufalega á miðjunni. Mikel Arteta knattspyrnustjóri var þó ekki tilbúinn að kasta Jorginho undir rútuna.

„Ég elska hann og við elskum hann öll. Mistök eru hluti af fótbolta,“ sagði Arteta.

„Þeir mega gera mistök því þeir eru að spila. Hann hjálpar liðinu. Við elskum hann öll og erum með honum.“

Arteta sagði jafnframt að seinna jöfnunarmark Tottenham hefði slegið hans menn niður á jörðina. Það kom örskömmu eftir að Bukayo Saka hafði komið Arsenal í 2-1 úr víti.

„Orkan og viðhorfið var frábært. Okkur vantaði smá ró með boltann gegn mjög góðu liði Spurs. Við erum svekktir að hafa ekki náð þremur stigum, sérstaklega því við komumst yfir í tvígang, sérstaklega vegna markanna sem við fengum á okkur og að við hefðum getað komist í 2-0 eftir skot Gabriel Jesus,“ en Guglielmo Vicario í marki Tottenham varði frábærlega frá Jesus í stöðunni 1-0.

„Hrós til þeirra. Þeir eru með gæði. Við gáfum boltann auðveldlega frá okkur og við gerðum ekki nóg á ákveðnum svæðum á vellinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×