Enski boltinn

Maguire að kveðja Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Maguire er á förum til West Ham ef að líkum lætur.
Harry Maguire er á förum til West Ham ef að líkum lætur. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

West Ham hefur komist að samkomulagi við Manchester United um kaup á enska landsliðsmiðverðinum Harry Maguire.

Frá þessu greina meðal annars The Athletic og Sky Sports í dag og segja að West Ham muni greiða 30 milljónir punda. Sky segir að samkomulag West Ham við leikmanninn sjálfan verði ekki vandamál.

Maguire lék aðeins 16 leiki í ensku úrvalsdeildinni með United á síðustu leiktíð og var kominn á eftir Lisandro Martínez, Raphael Varane og Victor Lindelöf í goggunarröðinni.

Maguire missti auk þess fyrirliðabandið hjá United fyrr í sumar.

Samningur Maguire við United átti að gilda til ársins 2025 og hann mun hafa vonast til þess að geta unnið sér aftur inn sæti í United-liðinu. Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, hefur hins vegar gefið til kynna að staða Maguire hjá United gæti haft slæmar afleiðingar fyri rlandsliðsferil hans.

West Ham bauð 20 milljónir punda í Maguire í júlí en því tilboði var hafnað. Lundúnafélagið mun einnig hafa gert Manchester United 30 milljóna punda tilboð í miðjumanninn Scott McTominay en því var hafnað.

Maguire kom til United frá Leicester fyrir 80 milljónir punda sumarið 2019. Félagið hefur í sumar fest kaup á markverðinum Andre Onana, miðjumanninum Mason Mount og sóknarmanninum Rasmus Höjlund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×